Fara á efnissvæði

Í tilefni af 110 ára afmæli Eimskips á dögunum bauð félagið til myndlistarsýningar í höfuðstöðvum sínum síðastliðinn laugardag. Þar mátti sjá valin verk úr safneign félagsins, sem m.a. telur verk eftir margt af þekktasta listafólki Íslands gegnum tíðina. Rúmlega 400 manns litu við til að berja listaverkin augum en 110 verk hanga nú uppi víðsvegar um höfuðstöðvar félagins að Sundabakka.

„Listaverk félagsins telja í hundruðum og það er virkilega gaman að geta boðið áhugasömum heim að skoða verk eftir margt af okkar merkasta myndlistarfólki eins og Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval, Gunnlaug Blöndal, Louisu Matthíasdóttur og Karólínu Lárusdóttur. Verkin hafa verið sett upp í höfuðstöðvunum okkar og munu vera þar áfram, enda gaman að blanda sögunni saman við nútímann og leyfa starfsfólki og gestum að njóta listarinnar“ segir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs Eimskips.

Sýningarstjóri var Katrín Eyjólfsdóttir. Katrín hefur stýrt fjölda myndlistasýninga í störfum sínum m.a. í Hverfisgallerí þar sem hún starfaði sem aðstoðarframkvæmdastjóri. „Það var einstaklega áhugavert að fá að kafa í ríkulega safneign félagsins. Mörg verkanna eru frá þeim tíma sem Íslendingar voru að öðlast sjálfstæði sem þjóð og það er einkennandi fyrir elstu verkin. Einnig var gaman að fá að skyggnast inn á vinnustaðinn og gefa listaverkunum sinn stað þar sem þau vonandi efla áfram góðan starfsanda sem og fegra annars fallegt vinnuumhverfi“ segir Katrín um sýninguna.

Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Eimskips