Saga Eimskipafélags Íslands er samofin þjóðarsögu Íslendinga. Stofnun þess var þáttur í sjálfstæðisbaráttunni og starfssaga félagsins endurspeglar þróun atvinnulífs á Íslandi. Saga Eimskipafélagsins spannar 110 ár en á þessum árum hefur þjóðin séð stórstígar framfarir sem eflt hefur mátt hennar og velmegun.
Allt frá stofnun félagsins hafa forsvarsmenn þess vitað mikilvægi þess að styðja við ýmsa menningarstarfsemi líkt og íslenska myndlist. Það hefur félagið gert með því að fjárfesta í myndlist og hafa íslenskir myndlistarmenn sem svifið hafa seglum þöndum á vit ævintýranna utan landsteinanna löngum notið velvilja félagsins.
Listaverk Eimskipafélags Íslands telja í hundruðum. Í tilefni af 110 ára afmælisárs félagsins eru fjölmörg listaverk úr safneign dregin fram á sérstakri sýningu sem helguð er listaverkasafni félagsins. Titill sýningarinnar, Hafið hugann ber, vísar í þau hughrif sem hafið hefur skapað hjá okkur Íslendingum í gegnum aldirnar. „Hafið bláa hafið, hugann dregur,“ eins og segir í kvæðinu, „hvað er bak við ystu sjónarrönd?“
Mörg listaverkanna eru eftir frumkvöðla í íslenskri myndlistarsögu en þar að auki má finna fjölda verka eftir yngri starfandi listamenn. Safnið veitir þannig góða yfirsýn yfir þróun íslenskrar myndlistar. Verkin bera vott um sögu menningu og þjóðar og eru um leið hvatning til núlifandi Íslendinga um farsæla framtíð. Hafið er viðfang margra verkanna. Hafið hugann ber, fyrir stafni er haf og himininn.
Uppsetning og rými
Uppsetning sýningarinnar tekur mið af skipulagi hönnunar skrifstofurýmisins. Hverju rými hefur verið gefið einkennandi nafn, þau smærri eftir skipshlutum, líkt og Dekkið, Brúin, Stefni o.fl. og þau stærri Landið og Sjórinn.
Þegar gengið er upp stiga úr anddyri höfuðstöðvum Eimskips er staðið á Dekkinu þar sem gefur að líta glæsilega sýningu af m.a. módelumsmíðum af helstu skipum félagsins í gegnum árin. Málverkasería eftir Karólínu Lárusdóttur sem ber yfirheitið Draumurinn um Eimskipafélagið, sería sem sérstaklega var unnin fyrir félagið og afhent árið 1996, flytur áhorfandann af Dekkinu og yfir á Landið.
Mörg listaverka safneignarinnar eru landlagsverk sem unnin voru á fyrri hluta síðustu aldar og finnast þar m.a. verk eftir Jón Stefánsson, Ásgrím Jónsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Kristínu Jónsdóttur og Jóhannes S. Kjarval. Eftir því sem lengra er gengið inn eftir Landinu má sjá yngri verk eftir listafólkið Arngunni Ýr, Tolla og Sigurð Árna Sigurðsson. Einnig má þar finna verk eftir Svarar Guðnason, Þorvald Stefánsson.
Á milli Lands og Sjávar stendur Brúin, frá Brúnni má m.a. sjá verk eftir Guðlaug Blöndal, Louisu Matthíasdóttur, Karl Kvaran. Tilkomumikið verk er ber nafnið Konungskoman frá árinu 1907 . Verkið sýnir frá komu Friðriks VIII og sonar hans Haralds ásamt 40 dönskum ríkisþingmönnum í kynnisferð hingað til lands 30. Júlí 1907. Hinum tignu gestum var fagnað með meiri rauns og viðhöfn en áður hafði þekkst hér á landi.
Þá er haldið á Sjóinn þar sem málverk sem fjalla um sjósókn, lífið við höfnina og hafið mikla. Má þar finna verk auk þeirra sem áður hafa verið nefnd, eftir Valtýr Pétursson, Svein Björnsson, Baltasar Samper auk margra annara.