Fara á efnissvæði

Rík tengsl Eimskips við íslenska listasögu

Saga Eimskipafélags Íslands er samofin þjóðarsögu Íslendinga. Stofnun þess var þáttur í sjálfstæðisbaráttunni og starfssaga félagsins endurspeglar þróun atvinnulífs á Íslandi. Allt frá stofnun félagsins hafa forsvarsmenn þess vitað mikilvægi þess að styðja við ýmsa menningarstarfsemi líkt og íslenska myndlist. Það hefur félagið gert með því að fjárfesta í myndlist og hafa íslenskir myndlistarmenn sem svifið hafa seglum þöndum á vit ævintýranna utan landsteinanna löngum notið velvilja félagsins. Safneign félagsins telur hundruð verka og voru valin verk sýnd í janúar á 110 ára afmæli félagsins á listasýningunni Hafið hugann ber.

Eimskip heldur nú áfram að sinna ábyrgðarhlutverki sínu gagnvart íslenskri myndlist, en á 110 ára afmæli félagsins 17. janúar 2024 var ákveðið að stofna nýjan listasjóð í þeim tilgangi að efla myndlistarmenn á Íslandi í sinni listsköpun. Framvegis verður úthlutað árlega úr sjóðnum á haustmánuðum, en helstu upplýsingar eru:

  • Heildarfjárhæð styrks er 3 milljónir króna og skiptist sú upphæð milli styrkþega
  • Styrktir eru 2-3 íslenskir myndlistarmenn í hvert sinn

Úthlutunarnefnd sér um að fara yfir umsóknir, en í henni eru:

  • Óskar Magnússon, stjórnarformaður Eimskips
  • Guðmundur Hagalínsson, fyrrum starfsmaður Eimskips til áratuga með sérþekkingu á safneign félagsins
  • Katrín Eyjólfsdóttir, sýningarstjóri myndlistarsýningar Eimskips, Hafið hugann ber

Styrkhafar 2024

Listamennirnir þrír sem hlutu styrk í fyrstu úthlutun:

Baldvin Einarsson er fæddur 1985 og er búsettur í Antwerpen í Belgíu. Í umsögn dómnefndar segir:
„Baldvin vinnur að því að skapa skýrar myndlíkingar sem varpa ljósi á óskýr og óræð fyrirbæri. Í verkum sínum leggur hann áherslu á leik og tilfinningar og leitast við að tjá hið ósegjanlega í gegnum listræna tjáningu. Með þessari nálgun býr hann til verk sem ögra bæði skynjun og hugsun áhorfandans.“

Helena Margrét Jónsdóttir er fædd 1996 og er búsett í Reykjavík.
„Helena Margrét fæst við raunsæis olíumálun þar sem hún sameinar hefðbundna tækni og tímalaus viðfangsefni með nútímalegum blæ. Í verkum sínum rannsakar hún flókið samband milli þess girnilega og ógeðslega og veltir upp spurningum um löngun og óþægindi. Hún tekst á við viðfangsefni á borð við blóm, vín, skordýr og hendur ásamt nútímalegum hlutum sem tákna girnd í dag, eins og sælgæti, gosdrykki, skó og handtöskur. Með þessari nálgun býr hún til verk sem ögra skynjun áhorfandans og bjóða upp á marglaga túlkun.“

Matthías Rúnar Sigurðsson er fæddur 1988 og er búsettur í Reykjavík.
„Matthías Rúnar sýnir einstaka hæfni til að sameina forvitni, sköpun og frásögn í list sinni, þar sem hann notar stein sem miðil til að kanna tímalaus áhrif myndmálsins. Verk hans eru djúpstæðar rannsóknir á sjónarhorni, menningarsögulegum tengingum og áhrifum listar á áhorfandann. Með því að brúa bilið milli hins gamla og nýja býr hann til verk sem bæði viðhalda arfleifð og ýta undir nýja nálgun í höggmyndalist.“

Umsóknarferli

Styrkurinn er ætlaður fyrir upprennandi íslenska listamenn.

Opnað verður næst fyrir umsóknir haustið 2025, en almennar fyrirspurnir má senda á myndlist@eimskip.com

Umsóknir skulu innihalda eftirtalin gögn:

  • Ferilskrá - þ.m.t. upplýsingar um nafn, kennitölu, reikningsnúmer, heimilisfang, símanúmer og netfang; auk tengla á heimsíðu og/eða samfélagsmiðla ef við á.
  • Hugleiðingar - hámark 400 orð.
  • Sýnishorn af 2-4 verkum með stuttum skýringartexta fyrir hvert verk (hámark 200 orð hver).

Umsókn

Lokað hefur verið fyrir umsóknir árið 2024. Opnað verður aftur fyrir umsóknir haustið 2025.