Í vikunni hlaut Eimskip viðurkenningu frá Pure North fyrir þátt fyrirtækisins í þjóðarátakinu Þjóðþrif sem snýst um að auka plastendurvinnslu og stuðla að öflugu hringrásarhagkerfi. Eimskip safnar plasti úr starfseminni og kemur því til Pure North sem vinnur að endurvinnslu þess. Árið 2023 skilaði félagið inn 18 tonnum af plastfilmu til Pure North sem kom í veg fyrir útblástur um 28.000 kg CO2.
Eimskip notar plastfilmu í starfseminni til að tryggja stöðugleika þeirrar vöru sem staflað er á bretti og koma þannig í veg fyrir tjón. Árið 2022 var víða skipt yfir í filmu sem var að hluta til endurunnin og nú er í prófun plastfilma sem er 100% endurunnin. Félagið vinnur þannig stöðugt að því að draga úr áhrifum plastnotkunar með nokkrum leiðum og mun halda áfram að leita úrlausna og styðja við hringrásarhagkerfið eins og kostur er.
Á myndinni eru Stefán Níels Guðmundsson forstöðumaður eignaumsýslu Eimskips og Agla Huld Þórarinsdóttir sjálfbærnisérfræðingur Eimskips auk Sigurðar Halldórssonar framkvæmdastjóra Pure North.