Nýjasta skip Eimskips, Dettifoss, hefur haft sína fyrstu viðkomu í Reykjavík en skipið er stærsta gámaskip í sögu íslenska kaupskipaflotans. Siglingin frá Kína tók 68 daga með viðkomu í Singapúr, Sri Lanka, Suez, Rússlandi og loks Danmörku, þar sem skipið var formlega tekið inn í siglingaáætlun Eimskips.
Dettifoss hefur einstaka stjórnhæfni og er sérstaklega hannaður til siglinga á Norður-Atlantshafi, útbúinn ísklassa og uppfyllir skipið svokallaðar Polar Code reglur sem eru nauðsynlegar til siglinga við Grænland.
Skipið er umhverfisvænasta skip íslenskra kaupskipa miðað við flutta gámaeiningu og er sérstaklega útbúið til að minnka losun köfnunarefnisoxíðs (NOx) og brennisteins (SOx) út í andrúmsloftið.
Smíði Dettifoss er liður í endurnýjun skipaflota Eimskips og samstarfi félagsins við grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line. Nú opnast spennandi tækifæri þegar Grænland tengist alþjóðlegu siglingakerfi Eimskips.
Við hlökkum til að bjóða viðskiptavinum áfram góða þjónustu með þessu öfluga og áreiðanlega skipi.