Fara á efnissvæði

Helstu atriði í afkomu þriðja ársfjórðungs

  • Tekjur námu 170,4 milljónum evra og lækkuðu um 2,1 milljónir evra eða 1,2% frá sama ársfjórðungi 2019.
    • Magn í áætlunarsiglingum jókst um 1,3% sem hafði jákvæð áhrif á tekjur, en lækkun tekna má meðal annars rekja til veikingar krónunnar og áhrifa þess á starfsemi á Íslandi.
    • Magn í flutningsmiðlun minnkaði um 5,3% en hins vegar jukust tekjur um 9,3% vegna hærra hlutfalls frystiflutninga og hærri verða á alþjóðlegum flutninga mörkuðum.
  • Kostnaður nam 149,0 milljónum evra sem er lækkun um 3,2 milljón evra milli tímabila sem skýrist að mestu af hagræðingaraðgerðum sem eru að skila sér.
    • Launakostnaður lækkaði um 6,3 milljónir evra eða 19,9%, þar af 2,5 milljónir evra vegna veikingar krónunnar.
    • Kostnaðarlækkun í siglingakerfi, stjórnunarkostnaði og olíuverði höfðu áhrif til lækkunar á kostnaði en á móti hækkaði kostnaður vegna hærri verða hjá alþjóðlegu skipafélögunum.
  • EBITDA nam 21,4 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi 2020 samanborið við 20,3 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs sem er hækkun um 5,4%.
    • Neikvæðra áhrifa vegna COVID-19 að fjárhæð 1,2 milljónum evra gætti á háannatíma í ferðaþjónustutengdu dótturfélögunum Sæferðum og Gáru.
  • Hagnaður fjórðungsins nam 6,2 milljónum evra samanborið við 7,2 milljónir evra hagnað fyrir sama ársfjórðung síðasta árs.
  • Handbært fé frá rekstri jókst um 14,0 milljón evra og nam 15,5 milljónum evra í lok tímabilsins samanborið við 1,5 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs.
    • Lausafjárstaða félagsins er góð og innborganir að fjárhæð 6,5 milljónir evra voru greiddar inná veltufjármögnunarlínu á fjórðungnum.

Helstu atriði í afkomu fyrstu níu mánuði ársins 2020

  • Tekjur námu 492,7 milljónum evra og lækkuðu um 11,4 milljónir evra eða 2,3 % samanborið við sama tímabil 2019.
  • Kostnaður nam 445,9 milljónum evra sem er lækkun um 8,8 milljónir evra milli tímabila. Launakostnaður lækkaði um 13,3 milljónir evra eða 13,5%, þar af um 5,6 milljónir evra vegna veikingar krónunnar.
  • EBITDA nam 46,7 milljónum evra samanborið við 49,4 milljón evra fyrir sama tímabil síðasta árs, sem er lækkun um 5,3%.
  • Hagnaður tímabilsins nam 3,7 milljónum evra samanborið við hagnað að fjárhæð 7,5 milljónum evra fyrir sama tímabil 2019.
  • Heildar fjárfestingar tímabilsins námu 32,7 milljónum evra sem er sambærilegt við fyrstu níu mánuði ársins 2019.
    • Fjárfestingar í nýjum gámaskipum námu 19,3 milljónum evra.
    • Þriðjungi af áætluðum viðhaldsfjárfestingum ársins, 4-5 milljónum evra, var frestað vegna óvissu tengt COVID-19.
  • Handbært fé frá rekstri nam 38,6 milljónum evra samanborið við 34,5 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs, sem er aukning um 12%.
  • Eigið fé nam 228,1 milljónum evra í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfallið nam 42,6% en til samanburðar var eiginfjárhlutfallið 44,0% í árslok 2019.
  • Skuldsetningarhlutfall var 3,31 í lok þriðja ársfjórðungs, samanborið við 3,03 í lok árs 2019. Það er yfir langtíma markmiðum um skuldsetningarhlutfall sem er 2-3x nettó vaxtaberandi skuldir á móti EBITDA að mestu vegna nýlegra fjárfestinga í nýjum skipum.
  • Mikil vinna hefur verið lögð í að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna, halda flutningakeðjunni gangandi og að tryggja góða þjónustu við viðskiptavini vegna áhrifa COVID-19. 

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

“Ég er ánægður með niðurstöðu þriðja ársfjórðungs og áframhaldandi bata í rekstri félagsins. Það var jákvæður viðsnúningur í magni á fjórðungnum og hagræðingaraðgerðir síðustu missera eru að skila sér í lægri kostnaði og bættri arðsemi. Magn í útflutningi frá Íslandi og Færeyjum var sterkt á fjórðungnum sem og í frystiflutningsmiðlun á alþjóðavettvangi. Enn fremur erum við að uppskera á hagkvæmara gámasiglingakerfi sem við innleiddum fyrr á árinu sem hluta af mótvægisaðgerðum vegna COVID-19 og við erum farin að sjá ávinning af samstarfi okkar við Royal Arctic Line. Hins vegar finnum við einnig fyrir neikvæðum áhrifum faraldursins t.d. á umboðsþjónustu skemmtiferðaskipa og á ferjurekstur á Íslandi en háannatími þeirrar starfsemi er á þriðja ársfjórðungi.

Ég er afar þakklátur fyrir samviskusemi og mikilvægt framlag fjölbreytts hóps starfsmanna sem hjá félaginu starfar um allan heim. Þeim hefur tekist að halda flutningakeðjunni okkar gangandi og haldið góðri þjónustu til viðskiptavina á þessum fordæmalausu tímum.

Það voru mikilvæg tímamót fyrir okkur þegar við tókum á móti seinni nýsmíðinni okkar, Brúarfossi, í Kína í byrjun október. Skipið kom inn í siglingaráætlun félagsins í Danmörku fyrr í þessari viku. Mig langar að þakka áhöfninni fyrir að vera tilbúin að ferðast til Kína á þessum krefjandi tímum vegna COVID-19 og tryggja örugga heimkomu nýja skipsins.

Eimskip hefur lengi lagt áherslu á samfélagslega ábyrgð í sínum rekstri. Sú staða sem kom upp í framhaldi af sölu á tveimur af eldri skipum félagsins var áminning um mikilvægi þess að hafa sjálfbærni mál í huga í öllum okkar ákvörðunum. Við höfum tekið þetta mál alvarlega og hafa ráðgjafar sem sérhæfa sig í sjálfbærnimálum framkvæmt ESG áhættumat á rekstri félagsins. Í kjölfar þess vinnum við nú að uppfærðri aðgerðaráætlun og sjálfbærni markmiðum. Sjálfbærni er vegferð og jafnvel þó við höfum verið leiðandi í þessum málaflokki á Íslandi árum saman þá erum við nú að auka áherslu á málaflokkinn og höfum nú sjálfbærni sérfræðing í fullu starfi hjá okkur.

Það er ágætis útlit fyrir fjórða ársfjórðung og afkoman í október góð en hins vegar eru nóvember og þá sérstaklega desember yfirleitt nokkuð sveiflukenndir og rólegri mánuðir. Við gerum ráð fyrir að hagræðingaraðgerðir síðustu 12-18 mánaða séu varanlegar. Óvissa vegna áhrifa COVID-19 á rekstur félagsins er áfram til staðar.“

RAFRÆNN KYNNINGARFUNDUR 20 NÓVEMBER 2020

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2020 á stjórnarfundi þann 19. nóvember 2020. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn föstudaginn 20. nóvember kl. 8:30. Fundurinn verður eingöngu rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar mun Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri kynna uppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

  • Egill Örn Petersen, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, sími: 525 7202
  • Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: investors@eimskip.com

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.