Fara á efnissvæði

HELSTU ATRIÐI Í AFKOMU FYRSTA ÁRSFJÓRÐUNGS 

  • Almennt góð rekstrarniðurstaða sem byggist á góðri afkomu í gámasiglingakerfinu á meðan afkoma alþjóðlegu flutningsmiðlunarinnar lækkaði eins og vænst var vegna breyttra aðstæðna á alþjóðlegum flutningsmörkuðum.
    • Skörp lækkun á alþjóðlegum flutningsverðum leiddi af sér lækkun á bæði tekjum og kostnaði félagsins samanborið við sama tímabil fyrra árs, einkum vegna lækkunar á verði aðkeyptar flutningsþjónustu.
    • Nokkur magnvöxtur í gámasiglingum samanborið við sama fjórðung síðasta árs eða 5,3%.
    • Innflutningur til Íslands hélst sterkur og útflutningur frá Íslandi og Færeyjum naut góðs af sterkum uppsjávarvertíðum á meðan útflutningur á eldislaxi og iðnaðarvöru frá Íslandi var lægri en gert var ráð fyrir.
    • Magn í Trans-Atlantic flutningum jókst um 9,6% á meðan flutningsverð lækkuðu frá fjórða ársfjórðungi síðasta árs og voru svipuð og á fyrsta ársfjórðungi 2022.
    • Lítilsháttar samdráttur í magni í alþjóðlegri flutningsmiðlun félagsins eða 2,4% en vel viðunandi rekstrarniðurstaða þrátt fyrir viðbúna lækkun frá fyrra ári.
  • Tekjur í fjórðungnum námu 214,6 milljónum evra sem er lækkun um 25,1 milljónir eða 10,5% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2022 sem skýrist helst af lægri flutningsverðum alþjóðlega.
  • Kostnaður nam 182,7 milljónum evra sem er lækkun um 26,6 milljónir eða 12,7% frá sama fjórðungi síðasta árs og skýrist að mestu af verulegri lækkun á kostnaði aðkeyptrar flutningsþjónustu.
  • Launakostnaður jókst um 2,7 milljónir evra eða 8,3% aðallega vegna fjölgunar stöðugilda og almennra launahækkana en á móti vega jákvæð gengisáhrif til lækkunar um 1,5 milljón evrur.
  • EBITDA nam 31,8 milljónum evra á fjórðungnum samanborið við 30,4 milljónir á fyrra ári, sem er hækkun um 1,5 milljón evrur eða 4,8%.
  • EBIT nam 15,8 milljónum evra sem er aukning um 0,7 milljón evrur eða 4,6%.
  • Afkoma hlutdeildarfélaga nam 1,9 milljón evra á fjórðungnum sem er aukning um 1,1 milljón frá sama tímabili síðasta árs.
  • Hagnaður tímabilsins nam 12,5 milljónum evra samanborið við 10,5 milljónir á sama tímabili síðasta árs.
  • Sterkt sjóðstreymi var frá rekstri að fjárhæð 34,3 milljónir evra sem er aukning um 5,5 milljónir samanborið við sama tímabil síðasta árs einkum vegna breytinga í veltufjármunum.
    • Sterk lausafjárstaða í lok tímabilsins sem nam 86,8 milljónum evra samanborið við 51,2 milljón í lok fyrsta ársfjórðungs 2022. Í lok fjórðungsins hafði um 22,7 milljónum evra verið úthlutað í væntanlega arðgreiðslu og um 12,7 milljónum til lækkunar hlutafjár en hvorutveggja var greitt út í apríl.
  • Viðhalds- og nýfjárfesting á fyrstu þremur mánuðum ársins var í samræmi við áætlanir og nam samtals 7,2 milljónum evra samanborið við 4,4 milljónir á fyrra ári.

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

“Heilt yfir erum við ánægð með niðurstöðu fyrsta ársfjórðungs. Nokkur magnvöxtur var í gámaflutningum og tekjustoðir kerfisins; Ísland, Færeyjar og Trans-Atlantic, skiluðu allar góðri afkomu. Innflutningur til Íslands var áfram sterkur og útflutningur frá Íslandi og Færeyjum naut góðs af sterkum uppsjávarvertíðum, en á sama tíma var útflutningur á eldislaxi og iðnaðarvöru frá Íslandi í lægð. Magn í Trans-Atlantic flutningum jókst um 9,6% en á sama tíma lækkuðu flutningsverðin, samhliða því sem jafnvægi náðist á alþjóðlegum flutningamörkuðum, og voru þau á svipuðum stað og á fyrsta ársfjórðungi 2022. Þessar miklu breytingar á markaðsaðstæðum höfðu jafnframt áhrif á alþjóðlegu flutningsmiðlunina okkar þar sem magn var svipað og á fyrra ári en afkoman lækkaði eins og við bjuggumst við.

Bæði tekjur og rekstrarkostnaður lækkuðu á fjórðungnum, einkum vegna lægri kostnaðar við aðkeypta þjónustu alþjóðlegra flutningsbirgja. Tekjur í fjórðungnum námu 214,6 milljónum evra og lækkuðu um 25,1 milljónir frá fyrra ári á meðan kostnaður nam 182,7 milljónum evra og lækkaði um 26,6 milljónir. EBITDA fjórðungsins nam 31,8 milljón evra og hækkaði um 1,5 milljón frá sama tímabili fyrra árs og þá nam EBIT 15,8 milljónum evra og hækkaði um 0.7 milljón. Hagnaður eftir skatt nam 12,5 milljónum evra samanborið við 10,5 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs.

Annar ársfjórðungur hefur verið viðburðarríkur hingað til og má meðal annars nefna sölu ferjunnar Baldurs, kaup okkar á umboðsþjónustu og flutningsmiðlunarstarfsemi Royal Arctic Line á Grænlandi, taktískum breytingum á siglingakerfinu og staðfestingu á nýjum sjálfbærnimarkmiðum sem fela meðal annars í sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og fyrirheit um að fjölga konum í stjórnunarstöðum.

Í apríl var gengið frá sölu á ferjunni Baldri, sem sinnir siglingum á Breiðafirði undir merkjum Sæferða. Baldur hefur um langt skeið gegnt lykilhlutverki í samgöngum Vestfjarða og mikilvægi ferjunnar hefur aukist enn frekar samhliða ört vaxandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Baldur mun halda siglingum áfram fram í október á þessu ári þegar hann verður afhentur nýjum eigendum. Þess er vænst að Vegagerðin tilkynni um útboð á ferjusiglingum á Breiðafirði á næstunni, en þar til þau mál skýrsast er uppi óvissa um framhald ferjureksturs Sæferða á svæðinu.

Í byrjun maí var endanlega gengið frá kaupum okkar á rekstri umboðsþjónustu og flutningsmiðlunar Royal Arctic Line á Grænlandi. Grænland er spennandi og ört vaxandi markaðssvæði og auka kaupin umsvif Eimskips á svæðinu umtalsvert sem og styrkja þjónustuframboð félagsins á grænlenska markaðnum.

Nýverið kynntum við breytingar á siglingakerfinu okkar, sem fela meðal annars í sér tengingu frystiflutningskerfisins í Noregi við gámasiglingakerfið í gegnum Færeyjar. Þessi breyting gerir okkur kleift að fækka um eitt gámaskip í rekstri, auka nýtingu í kerfinu sem og á hafnarsvæði okkar í Færeyjum ásamt því að draga úr olíunotkun sem lækkar kolefnispor félagsins. Á sama tíma kynntum við til leiks vikulegar strandsiglingar við Ísland sem styrkir verulega innanlandskerfið og þjónustuframboð félagsins. Þessar breytingar skapa enn fremur viðskiptatækifæri með nýjum tengingum ásamt því að draga úr rekstrarkostnaði.

Nokkur óvissa ríkir um horfur næstu mánuði. Heimamarkaður okkar í Norður-Atlantshafi stendur vel á sama tíma og hinar snörpu breytingar sem við höfum séð á alþjóðlegum flutningsmörkuðum munu óumflýjanlega hafa áhrif á erlenda flutningsmiðlunarstarfsemi félagsins sem og verðþróun í Trans-Atlantic flutningum. Á hinn bóginn hafa lægri flutningsverð alþjóðlega, og lækkun á olíuverði, dregið úr heildarflutningskostnaði viðskiptavina sem ætti að hafa jákvæð áhrif á eftirspurn til lengri tíma litið. Við finnum fyrir verðbólguþrýstingi á laun og annan rekstrarkostnað, bæði á Íslandi og alþjóðlega, og leggjum ríka áherslu á virkt kostnaðaraðhald.

KYNNINGARFUNDUR 17. MAÍ 2023

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir fyrsta ársfjórðung á stjórnarfundi þann 16. maí 2023. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 17. maí kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og María Björk Einarsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

María Björk Einarsdóttir, fjármálastjóri , sími: 774 0604, netfang: investors@eimskip.com.

Guðbjörg Birna Björnsdóttir, forstöðumaður fjárstýringar og fjárfestatengsla, sími: 844 4752, netfang: investors@eimskip.com

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.