Fara á efnissvæði

Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs

  • Heilt yfir var rekstrarárangur góður á fyrsta ársfjórðungi með bættri afkomu í gámasiglingakerfinu og jákvæðum niðurstöðum í flutningsmiðlun þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður sem litast af ójafnvægi á alþjóða skipaflutningamörkuðum sem hafði áhrif á afkastagetu og aðgengi að tækjabúnaði.
  • Tekjur námu 180,2 milljónum evra og hækkuðu um 18,6 milljónir evra eða 11,5% samanborið við sama tímabil á árinu 2020.
    • Tekjustýringarverkefni höfðu jákvæð áhrif á tekjur og þá hækkuðu tekjur í flutningsmiðlun m.a. vegna verðhækkana flutningsbirgja á alþjóða skipaflutningamörkuðum.
  • Kostnaður nam 163,9 milljónum evra sem er hækkun um 11,6 milljónir evra miðað við sama tímabil síðasta árs eða 7,6%.
    • Kostnaður vegna flutningsbirgja hækkaði verulega í t.d. for- og áframflutningi og sjóflutningi vegna stöðunnar á alþjóða skipaflutningamörkuðum.
    • Olíukostnaður lækkaði milli tímabilanna vegna lægra olíuverðs og minni olíunotkunar.
  • EBITDA nam 16,3 milljónum evra samanborið við 9,3 milljónir evra fyrir sama tímabil á árinu 2020, sem er hækkun um 74,7%. EBITDA framlegð var 9,0% samanborið við 5,8% árið 2020.
    • Bætt nýting og hærri framlegð í gámasiglingakerfinu skiluðu hækkun í EBITDA auk almennt jákvæðrar þróunar í flutningsmiðlun þrátt fyrir krefjandi aðstæður á mörkuðum.
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, EBIT, nam 4,5 milljónum evra samanborið við rekstrartap að fjárhæð 1,6 milljón evra sem er bæting um 6,1 milljón evra milli tímabila.
  • Hagnaður tímabilsins nam 2,8 milljónum evra samanborið við tap að fjárhæð 4,9 milljónir evra fyrir sama tímabil í fyrra.
  • Handbært fé frá rekstri nam 7,8 milljónum evra, samanborið við 1,2 milljónir evra árið áður.
  • Eigið fé nam 222,0 milljónum evra í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfallið nam 40,2% en til samanburðar var eiginfjárhlutfallið 43,0% í árslok 2020. Skuldsetningarhlutfall lækkar og var 2,97 í lok tímabilsins, samanborið við 3,33 í lok árs 2020.

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

„Ég er ánægður með rekstrarárangur fyrsta ársfjórðungs þar sem afkoma í gámasiglingakerfinu jókst, sérstaklega undir lok fjórðungsins. EBITDA tímabilsins jókst verulega milli ára eða um 7,0 milljónir evra, meðal annars vegna mikillar áherslu á tekjustýringu, betri nýtingar í gámasiglingakerfinu og svo gætir enn áhrifa hagræðingarverkefna síðasta árs. Það var sterk magnaukning í Trans-Atlantic flutningum á fjórðungnum þar sem við, að hluta til, nutum góðs af ójafnvægi á alþjóða skipaflutningamörkuðum þar sem eftirspurn hefur verið meiri en afkastageta í siglingum yfir hafið. Á móti kemur að staðan á þessum mörkuðum hefur meðal annars valdið hækkunum á leiguverði skipa og þar af leiðandi aukið kostnað í gámasiglingakerfinu okkar. Reksturinn í Færeyjum hefur verið krefjandi vegna áhrifa Brexit og COVID-19, sérstaklega í útflutningi á ferskum fiski, en þróunin í lok fjórðungsins var jákvæð og hefur sú þróun haldið áfram inn í annan ársfjórðung. Heilt yfir var afkoma í alþjóðlegu flutningsmiðluninni góð þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður. Innanlandsrekstur á Íslandi var góður og naut meðal annars góðs af auknum umsvifum. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður á alþjóðamörkuðum hefur okkur tekist að viðhalda þjónustustigi í gámasiglingum og aðgengi viðskiptavina að nauðsynlegum búnaði sem má sérstaklega þakka útsjónarsemi starfsfólks.  

Áfram vinnum við eftir þriggja ára aðgerðaráætlun okkar um sjálfbærni og erum að innleiða ýmsar nýjar stefnur eins og meðal annars stefnu um vernd uppljóstrara, stefnu gegn peningaþvætti, innkaupastefnu og siðareglur fyrir birgja. Við sjáum jákvæða þróun í umhverfisuppgjöri okkar fyrir fyrsta ársfjórðung og erum meðal annars að flokka 12% meira af úrgangi í mældri starfsemi en á sama ársfjórðungi í fyrra þökk sé frábæru framlagi starfsfólks okkar.

Ég er mjög ánægður að sjá góða niðurstöðu úr nýjustu starfsmannakönnun okkar sem er mjög verðmætt fyrir fyrirtækið og ég er þakklátur starfsmönnum okkar sem hafa aðlagast vel þessum nýja raunveruleika sem við búum við.

EBITDA afkomuspá ársins 2021 er áfram á bilinu 68-77 milljónir evra. Það hefur verið gott magn í gámasiglingakerfinu það sem af er núverandi ársfjórðungi og flutningsmiðlun gengur áfram vel, en við erum meðvituð um óstöðugt ástand á alþjóða skipaflutningamörkuðum og munum halda áfram að fylgjast náið með þróun þeirra.“

RAFRÆNN KYNNINGARFUNDUR 12 MAÍ 2021

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti ársreikning samstæðu Eimskips fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2021 á stjórnarfundi þann 11. maí 2021. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 12. maí kl. 8:30. Fundurinn verður eingöngu rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar mun Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri kynna uppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni. 

FREKARI UPPLÝSINGAR

Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: investors@eimskip.com.

TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.