Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs
- Sterkur rekstrarárangur á öðrum ársfjórðungi þar sem heilt yfir var gott magn í kerfum félagins sem má rekja til jákvæðra áhrifa af auknum umsvifum á helstu markaðssvæðum gámasiglinga, aðstæðum á alþjóða flutningamörkuðum og áherslu á sókn í ný viðskipti.
- Góð nýting og jafnvægi í flutningum í gámasiglingakerfinu.
- Verulegur magn vöxtur í Trans-Atlantic flutningum.
- Góður árangur í alþjóðlegri flutningsmiðlun þar sem kostnaður vegna kaupa á þjónustu af flutningsbirgjum fyrir hönd viðskiptavina eykst verulega vegna ójafnvægis á alþjóðlegum flutningamörkuðum en leiðir á sama tíma til samsvarandi hækkunar sölutekna.
- Sátt var gerð við Samkeppniseftirlitið vegna samkeppnismálsins er varðar árin 2008-2013. Sekt að fjárhæð 10.2 milljónir evra gjaldfærð á fjórðungnum.
- Tölur að neðan eru aðlagaðar fyrir sektinni til að auðvelda samanburð á rauntölum úr rekstri milli tímabila.
- Tekjur námu 211,1 milljónum evra og hækkuðu um 50,5 milljónir evra eða 31% samanborið við sama fjórðung á árinu 2020 sem var ekki sterkur fjórðungur.
- Hærri sölutekjur eru að hluta til tilkomnar vegna aukningar í kaupum á þjónustu flutningsbirgja.
- Tekjustýringarverkefni, jákvæð magnþróun og samsetning flutningsmagns höfðu einnig jákvæð áhrif á tekjur.
- Aðlagaður kostnaður nam 181,4 milljónum evra sem er hækkun um 25% og skýrist að mestu af verulegri aukningu í kostnaði vegna kaupa á þjónustu flutningsbirgja.
- Verulegur vöxtur var í EBITDA þar sem aðlöguð EBITDA nam 29,7 milljónum evra samanborið við 16,0 milljónir evra fyrir sama tímabil á árinu 2020. EBITDA framlegð var 14,1% samanborið við 10,0% fyrir sama tímabil árið 2020.
- Aukið magn og hagstæðari samsetning í gámasiglingakerfinu, tekjustýring og hærra hlutfall af Trans-Atlantic flutningum skýra hækkunina að mestu leiti.
- Áframhaldandi góður árangur í alþjóðlegri flutningsmiðlun sem nýtur góðs af almennt hærri verðum á mörkuðum.
- Aðlagað EBIT nam 17,5 milljónum evra samanborið við 5,0 milljónir evra eða hækkun um 12,4 milljónir evra milli tímabila.
- Aðlagaður hagnaður tímabilsins nam 13,3 milljónum evra samanborið við 2,5 milljónir evra fyrir sama tímabil í fyrra.
- Eiginfjárhlutfall nam 39,7% og aðlagað skuldsetningarhlutfall var 2,61 sem bæði eru í samræmi við útgefin markmið.
Helstu atriði í afkomu fyrstu sex mánaða ársins 2021
- Tekjur námu 391,4 milljónum evra og hækkuðu um 69,1 milljón evra eða 21% samanborið við sama tímabil 2020.
- Aðlagaður kostnaður nam 345,2 milljónum evra sem er hækkun um 48,4 milljónir evra milli tímabila. Óveruleg breyting er á launakostnaði milli ára.
- Góð aukning í EBITDA þar sem aðlöguð EBITDA nam 46,0 milljónum evra samanborið við 25,3 milljón evra fyrir sama tímabil síðasta árs, sem er aukning um 20,7 milljónir evra. Jákvæð áhrif af hagræðingar og samþættingar aðgerðum síðasta árs.
- Aðlagað EBIT nam 21,9 milljónum evra samanborið við 3,4 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs.
- Verulegur viðsnúningur var í hagnaði tímabilsins þar sem aðlagaður hagnaður tímabilsins nam 16,2 milljónum evra samanborið við tap að fjárhæð 2,5 milljónir evra fyrir sama tímabil 2020.
- Fjárfestingar tímabilsins námu 5,5 milljónum evra samanborið við 26,1 milljón evra fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2020.
- Uppfærð aðlöguð afkomuspá fyrir allt árið 2021 er á bilinu 90-100 milljónir evra og aðlagað EBIT á bilinu 41-51 milljónir evra.
- Byggir á rauntölum úr rekstri fyrstu sex mánaða 2021, stjórnendauppgjöri fyrir júlí sem nú liggur fyrir, núverandi horfum fyrir ágúst og uppfærðri rekstrarspá fyrir það sem eftir lifir ársins.
- Breitt bil í afkomuspánni endurspeglar óvissu og ójafnvægi sem ríkir á alþjóðlegum flutningamörkuðum.
VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI
„Ég er mjög ánægður með rekstrarárangur annars ársfjórðungs sem fór fram úr væntingum okkar. Við erum að sjá árangur af mikilli vinnu starfsfólks við mörg umbótaverkefni t.d. tekjustýringu, hagræðingar- og samþættingarverkefni og við að fínstilla framleiðslukerfin okkar. Einnig hafa markaðsaðstæður verið okkur í hag, þrátt fyrir að vera krefjandi. Ég er gríðarlega ánægður með seiglu og útsjónarsemi starfsfólks á þessum krefjandi tímum sem einnig leggur grunninn að góðum rekstrarárangri.
Fjárhagslega litaðist fjórðungurinn og fyrstu sex mánuðir ársins af ójafnvægi á alþjóðlegum flutningamörkuðum sem leiddi til m.a. hærri tekna og hærri kostnaðar. Þá er þróun á alþjóðlegum leigu skipamörkuðum áhyggjuefni þar sem leiguverð er mjög hátt og er sú staða talin geta varað inn í árið 2022 hið minnsta.
Aðlöguð EBITDA á fjórðungnum var sterk og nam 29,7 milljónum evra. Hækkunina má að mestu leiti skýra með auknu magni og hagstæðari samsetningu flutningsmagns, tekjustýringu og hærra hlutfalli af Trans-Atlantic flutningum. Magn í Trans-Atlantic flutningum hélt áfram að vaxa á fjórðungnum með jákvæðum framlegðaráhrifum þar sem verð í þeim flutningum eru yfir meðaltalsverðum. Að auki var góður árangur í alþjóðlegri flutningsmiðlun þrátt fyrir sveiflur á flutningamörkuðum. Hlutfall tekna í starfsemi Eimskips sem eiga uppruna sinn utan Íslands var 57% á fjórðungnum og hefur vaxið úr 45% frá árinu 2016.
Í júní gerði Eimskip sátt við Samkeppniseftirlitið í gamla samkeppnismálinu sem varðaði árin 2008-2013. Þrátt fyrir neikvæðu fjárhagslegu áhrifin af sektinni var það mat stjórnar Eimskips að best væri fyrir heildarhagsmuni félagsins að ljúka þessu gamla máli með sátt.
Að teknu tilliti til rekstrarniðurstaðna fyrir fyrstu sex mánuði ársins, stjórnendauppgjörs fyrir júlí sem nú liggur fyrir, núverandi spár fyrir ágúst og horfur fyrir magn og framlegð það sem eftir lifir árs er uppfærð aðlöguð afkomuspá fyrir árið 2021 nú á bilinu 90-100 milljónir evra. Vegna þeirrar óvissu og ójafnvægis sem er viðvarandi á alþjóðlegum flutningamörkuðum höldum við áfram að hafa tiltölulega breitt bil í spánni.“
RAFRÆNN KYNNINGARFUNDUR 20. ÁGÚST 2021
Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti samandreginn árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir annan ársfjórðung 2021 á stjórnarfundi þann 19. ágúst 2021. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn föstudaginn 20. ágúst kl. 8:30. Fundurinn verður eingöngu rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar mun Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri kynna uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.
FREKARI UPPLÝSINGAR
Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: investors@eimskip.com .
TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA
Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.