Fara á efnissvæði

Í umhverfisuppgjöri Eimskips fyrir þriðja  ársfjórðung má sjá að heildarlosun er óbreytt miðað við þriðja ársfjórðung 2023. Ástæða þess liggur fyrst og fremst í því að nokkrar olíutökur á stærri skipin Dettifoss og Brúarfoss féllu á þennan ársfjórðung í stað Q2 en áfram er talið að samdráttur verði á heildarlosun 2024 miðað við 2023 um 2%-4%. Losun í umfangi 2 dróst saman um 23% miðað við þriðja ársfjórðung 2023 en rafmagn er lítill hluti af heildarlosun og því eru breytingar sveiflukenndari þegar þær eiga sér stað. Það sem skýrir þessa breytingu er minni rafmagnsnotkun á Sundahöfn miðað við þriðja ársfjórðung í fyrra.

Það sem af er ári hefur Eimskip unnið að ýmsum verkefnum til að draga úr áhrifum fyrirtækisin á umhverfið. Lagarfoss fór í slipp þar sem kjölur skipsins var m.a. málaður með sérstakri málningu sem dregur úr viðnámi skipsins á ferð, sem stuðlar að umhverfisvænni rekstri. Afleiðing af því er minni olíueyðsla sem dregur úr umhverfisáhrifum.  
Nýr skipakrani sem hefur verið nefndur Bára var tekinn í notkun í sumarbyrjun en hann er knúinn rafmagni eins og aðrir skipakranar í Sundahöfn. Fjárfestingin er liður í því markmiði félagsins að efla enn frekar þjónustu við viðskiptavini með áreiðanlegra siglingakerfi. Nýi kraninn stuðlar að aukinni afkastagetu í lestun og losun gáma á Sundahafnarsvæðinu og þar með styttist tími skipa í höfn.  Ávinningur þess er meðal annars sá að hægt er að draga úr siglingahraða og þar með draga úr umhverfisáhrifum í gámasiglingum.  

Tveir nýir flutningabílar sem eru knúnir með grænu metani hafa bæst í bílaflotann og er félagið nú með 10 grænorkubíla, þar af 6 metan bíla í rekstri. Metan er jarðgas sem myndast meðal annars úr matarleifum, en það metan sem fer á flota Eimskips er upprunið frá Gaju, gas og jarðgerðarstöð Sorpu.

Ný sorpflokkunarstöð var tekin í notkun við Sundahöfn á fyrri hluta ársins. Með þessari breytingu hafa vinnuaðstæður starfsfólks batnað auk þess sem betri yfirsýn næst yfir verðmæt efni sem hægt er að endurnýta eða endurvinna. Samhliða þessu varð sú breyting að allur lífrænn úrgangur á Sundahafnarsvæðin fer í moltuvél og úr verður fyrirtaks áburður sem hefur verið nýttur til ræktunar.  Hlutfall endurvinnslu var 99% á ársfjórðungnum en var 78% á sama ársfjórðungi í fyrra. Rekja má þessar umbætur að hluta til bættrar vinnuaðstöðu en einnig hefur umsýsla við blandaðan úrgang breyst. Áður fór blandaður úrgangur í landfyllingu en í dag hann nýttur til orkuframleiðslu.

Uppgjörið má finna hér.