.
Heildarlosun dróst saman um 5% miðað við þriðja ársfjórðung 2022 og fór úr 72.694 toCO2e niður í 68.921 tCO2e. Losun í umfangi 1 á þriðja ársfjórðungi 2023 var 5% lægri en fyrir sama tímabil í fyrra en losun í umfangi 1 skýrir meginlosun fyrirtækisins. Losun í umfangi 2 jókst miðað við þriðja ársfjórðung 2022 en rafmagn er lítill hluti af heildarlosun og því eru breytingar sveiflukenndari þegar þær eiga sér stað. Það sem skýrir þessa breytingu nú er fyrst og fremst fleiri kæli- og frystigámar í hleðslu. Einnig er aukning í losun umfangs 3 miðað við sama ársfjórðung og í fyrra eða 27% sem má rekja til ferðalaga starfsfólks.
Á ársfjórðungunum vann félagið enn frekar að verkefnum til að draga úr áhrifum þess á umhverfið. Stærstu skip félagsins Brúarfoss og Dettifoss fóru í slipp þar sem m.a. kjölur skipanna voru máluð með sérstakri málningu sem dregur úr viðnámi skipsins á ferð og er talið að það geti dregið úr eyðslu um 6-8%. Þá hefur verið settur nýr tækjabúnaður í frystiskip félagsins sem sigla við Noregsstrendur sem lýtur að því að draga úr NoX mengun skipa.
Þrír rafmagnsflutningabílar með kælivél eru nú komnir í rekstur en Eimskip er meðal fyrstu fyrirtækja sem dreifir kælivöru með rafmagnsflutningabílum. Það er aukaáskorun að dreifa kælivöru á rafmagnsbílum enda fer umtalsverð orka í kælingu matvæla á meðan á dreifingu stendur. Samhliða móttöku bílanna var sett upp öflug hleðslustöð 150 kw við starfsstöðvarnar í Klettagörðum og í leiðinni var bætt við hleðslustöðvar fyrir fólksbíla. Nú er því aðgengi að 28 hleðslustöðvum á 4 starfssvæðum Eimskips á höfuðborgarsvæðinu.
Eimskip er eitt 500 fyrirtækja sem komst inn á lista Financial Times 2023 sem loftlagsleiðtogar og er félagið afar stolt af tilnefningunni. Á þessum lista má meðal annars finna íslensku fyrirtækin Landsvirkjun, Brim og Arion banka. Við val á fyrirtækjum á listann er horft til samdráttar á á útblæstri að teknu tilliti til veltu.
Félagið vinnur hörðum höndum að undirbúa frekari birtingu sjálfbærnigagna en Eimskip mun birta upplýsingar samkvæmt EU Taxonomy fyrir fjárhagsárið 2023. Einnig er unnið að verkefnum er snúa að nýrri sjálfbærnireglugerð Evrópusambandsins.
Umhverfisskýrsluna má finna hér.