Fara á efnissvæði

Umhverfisskýrsla fyrir fyrsta ársfjórðung hefur verið birt. Eimskip leggur áherslu á að birta umhverfisuppgjör sitt samhliða fjárhagsuppgjöri enda nýtir félagið skýrsluna til að meta árangur hverju sinni sem og að styðja verkefnaval fyrir komandi ársfjórðunga. 

Eimskip hefur náð vel utan um umfang 1 og 2 í sinni kolefnislosun og nær uppgjörið nú til 17 landa af 20 sem félagið starfar í.  Auk Íslands eru það Belgía, Brasilía, Bretland, Danmörk, Færeyjar, Grænland, Holland, Ítalía, Noregur, Pólland, Spánn, Svíþjóð, Taíland, Víetnam og Þýskaland.  Stefnt er að því að ná inn síðustu löndunum á árinu.

Heildarlosun hefur dregist saman um 8% miðað við fyrsta ársfjórðung í fyrra.  Losun í umfangi 1 á fyrsta ársfjórðungi 2023 var 9% lægri en fyrir sama tímabil í fyrra.  Mikil vinna hefur verið lögð í að draga úr fótsporinu en einnig hefur mildari vetur haft jákvæð áhrif. Losun í umfangi 2 hefur dregist lítilega saman miðað við fyrsta ársfjórðung 2022.

Losun umfangs 3 er lægra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs miðað við sama ársfjórðung og í fyrra en fyrirtækið hefur náð utan um úrgang á Íslandi og stóran hluta flugs.  Helsta ástæða lækkunar eru færri flugferðir.  Magn úrgangs hefur dregist saman um 2% en hins vegar er hlutfall flokkaðs úrgang lægri en á sama tíma í fyrra.

Eimskip tók við tveimur rafmagnstrukkum á Íslandi á fyrsta ársfjórðungi. Trukkarnir eru 18 bretta með allt að  300 km akstursdrægni.  Eimskip er eitt af fyrstu fyrirtækjum á Íslandi til að nota rafknúna vöruflutningabíla í þjónustu sinni en félagið hefur áður fjárfest í metan trukkum og smærri rafmagnsbílum. 

Faroe Ship dótturfélag Eimskips í Færeyjum er hluti af Burðardygt Vinnulív sem er samstarfsverkefni í sjálfbærni meðal nokkurra fyrirtækja þar í landi.  Samtökin fengu  edie verðlaun fyrir “Partnership and Collaboration of the Year” en verðlaunin veita ein stærstu sjálfbærnisamtök Bretlands.  Það er mikill hugur í Færeyingum þegar horft er til sjálfbærni og áhugavert að fylgjast með árangri samfélagsins þar.

Eimskip kynnir einnig stolt ný sjálfbærnimarkmið en félagið stefnir á kolefnishlutleysi (Net-Zero Emissions) fyrir árið 2040.  Félagið telur að unnt sé að ná þessum markmiðum, tækniþróun er hröð og mun nýfjárfesting beinast í auknum mæli að grænum kostum.  Þetta markmið krefst hins vegar samvinnu við stjórnvöld og orkufyrirtæki enda er græn orka lykilatriði til að árangur náist.