Mikið óveður í Færeyjum olli því að skip Royal Arctic Line, Tukuma Arctica, sem staðsett er í Þórshöfn, losnaði frá hafnarbakkanum í nótt, færðist til í höfninni og skorðaðist við hinn enda hafnarinnar. Tukuma Arctica er eitt af þremur skipum í samsiglingum Eimskips og Royal Arctic Line. Áhöfnin er að skoða skipið og meta skemmdir en ekki verður hægt að leggja frekara mat á það fyrr en veður lægir í Færeyjum síðdegis í dag. Engin slys urðu á fólki og engar skemmdir á farmi ásamt því að engar vísbendingar eru um olíuleka. Eimskip mun fylgjast vel með málinu.