Fara á efnissvæði

Eimskip hefur borist fyrirspurn frá RÚV í tengslum við sölu og tímabundna endurleigu Eimskips á gámaskipunum Goðafoss og Laxfoss í lok árs 2019 og þá sér í lagi varðandi það að kaupandi skipanna ákvað að setja þau í endurvinnslu á Indlandi í sumar. Í því ljósi telur félagið rétt að veita nánari upplýsingar um söluna.  

Markaðsaðstæður á gámaskipamörkuðum síðustu ár hafa verið mjög erfiðar og takmörkuð eftirspurn eftir notuðum gámaskipum af þessari stærð. Skipin voru boðin til sölu í gegnum nokkra alþjóðlega skipamiðlara á árinu 2019 en þrátt fyrir það var aðeins einn aðili sem gerði skuldbindandi kauptilboð sem að auki samþykkti að leigja Eimskip skipin til baka eftir söluna svo félagið gæti notað þau tímabundið í sinni þjónustu.

Mótaðili Eimskips við söluna var GMS, viðurkenndur alþjóðlegur aðili, sem er stærsti kaupandi í heimi á notuðum skipum. Goðafoss og Laxfoss voru orðin 25 ára gömul og það hafði legið fyrir lengi að þegar nýju skipin, Dettifoss og Brúarfoss, yrðu afhent myndi félagið leita leiða til að selja hin skipin.  Eftir um 20 ára farsæla þjónustu hjá Eimskip vitum við að það var mörgum sárt að horfa á eftir skipunum sigla frá landinu í síðasta sinn, á sama tíma og tilhlökkunin eftir nýju skipunum var mikil.

Nýr eigandi tók við rekstri skipanna í upphafi árs en samhliða sölunni í desember sl. gerði Eimskip samning um leigu skipanna meðan beðið var eftir nýju skipunum tveimur. Sökum óvæntra og óhagstæðra markaðsaðstæðna var skipunum skilað á vormánuðum fyrr en áætlað hafði verið. Í kjölfarið tók nýr eigandi skipanna ákvörðun um að selja skipin í endurvinnslu á Indlandi en þar er skipum siglt upp í fjöru þar sem endurvinnsla fer fram. Yfir 90% af skipaflota heims mun vera endurunninn með þessum hætti.

Eimskip tók ekki ákvörðun um að skipin yrðu sett í endurvinnslu. Eimskip hefur nú fengið upplýsingar um að skipin hafi verið seld til endurvinnslu annars vegar til Malwi Ship Breaking CO no. 58 og hins vegar Gohilwad Ship Breaking CO no. 87A. Báðar stöðvarnar eru staðsettar á Alang á Indlandi og starfa samkvæmt „Recycling of Ships Act, 2019“ sem eru byggð á alþjóðlega Hong Kong samningnum um örugga og umhverfisvæna endurvinnslu skipa frá 2009. Sá alþjóðasamningur hefur verið í innleiðingu hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) frá þeim tíma, með stuðningi og staðfestingu í löndum eins og Japan, Þýskalandi, Danmörku, Noregi og Frakklandi. Indland hefur einnig staðfest þann alþjóðasamning.  Báðar stöðvarnar eru með ISO vottanir eins og ISO 9001 (gæðastjórnun), ISO 14001 (umhverfisstjórnun) og ISO 45001 (vinnuvernd).  Eimskip hefur verið fullvissað um að skipin hafi verið endurunnin í samræmi við gildandi reglur og samkvæmt ISO gæða- og öryggis stöðlum.

Eimskip fylgdi í einu og öllu lögum og reglum í þessu söluferli og seldi skipin til áframhaldandi rekstrar en ekki til endurvinnslu. Félagið tekur umræðu um þetta mál alvarlega, enda markmið þess að vera samfélagslega ábyrgt.