Í ljósi yfirlýsingar sem birtist á vef Samkeppniseftirlitsins þann 15. október sl. má greinilega skilja að allur fréttaflutningur af meintu samráði Eimskipafélagsins og Samskipa sé ótímabær.Í tilkynningunni segir orðrétt að Samkeppniseftirlitið er ... ekki reiðubúið að staðfesta þá umfjöllun sem fram kom í Kastljósi í gærkvöldi. Þá skal sérstaklega tekið fram að rannsókn málsins er ekki komin á það stig að unnt sé að slá neinu föstu um niðurstöður hennar. Eimskipafélagið furðar sig á þeim fréttaflutningi sem viðhafður hefur verið af hálfu Ríkisútvarpsins í þessu samhengi. Um félög á hlutabréfamarkaði gilda lög sem skilgreina hvernig fara skuli með innherjaupplýsingar. Miðlun innherjaupplýsinga er bönnuð. Þeim sem hafa slíkar upplýsingar undir höndum ber að fara að einu og öllu eftir þeim lögum.Eimskipafélaginu ber lagaleg skylda að tilkynna þar til bærum yfirvöldum ef grunur leikur á að innherjaupplýsingum hafi verið miðlað á ólögmætan hátt. Hefur félagið því sent Fjármálaeftirlitinu og Kauphöll Íslands ábendingu um möguleg lögbrot.Einnig hefur félagið sent bréf til Samkeppniseftirlitsins og Sérstaks saksóknara og krafist þess að fá afhent öll gögn er geta tengst umræddum umfjöllunum Kastljóss þann 14. og 15. október sl. til þess að félagið geti svarað þeim ásökunum sem fram hafa komið og sinnt lagalegum skyldum sínum gagnvart hlutabréfamarkaðnum og hluthöfum félagsins.Félagið hefur falið lögmönnum sínum að undibúa kæru til lögreglu þar sem verður óskað eftir rannsókn á meintum leka á gögnum málsins til Ríkisútvarpsins.Alvarleiki málsins endurspeglast í því að hlutabréf Eimskipafélagsins hafa verið athugunarmerkt hjá Kauphöll Íslands. Það getur valdið félaginuhluthöfum og markaðnum í heild umtalsverðum skaða.Munurinn á kæru og ákæru er lítill í orði en mikill á borði. Einstaklingar eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð fyrir dómi. Málið er enn á rannsóknarstigi og óvíst hvort ákæra verði gefin út. Það er sorglegt til þess að vita að trúnaður virðist ekki geta ríkt innan eftirlitsstofnana og að trúnaðargögnun sem unnið er með skuli vera lekið í fjölmiðla til opinberrar birtingar. Það er ójafn leikur enda hafa þeir sem um er fjallað ekki séð gögnin og geta þar af leiðandi ekki varist.Að lokum vill félagið ítreka að það hafnar með öllu ásökunum um brot á samkeppnislögum.