Í umfjöllun Kveiks þann 24. september var greint frá afdrifum tveggja skipa, Goðafoss og Laxfoss, sem áður voru í eigu Eimskips.
Eimskip hefur verið með ný skip í smíðum frá árinu 2017 til að leysa af hólmi skipin Goðafoss og Laxfoss og hafði þar af leiðandi í töluverðan tíma reynt að selja þau í gegnum alþjóðlega skipamiðlara. Í lok árs 2019 voru skipin loks seld og tók nýr eigandi við rekstri þeirra í upphafi þessa árs. Samhliða sölunni gerði Eimskip samning um að leigja þau meðan beðið var eftir afhendingu nýrra skipa. Sökum óvæntra og óhagstæðra markaðsaðstæðna skilaði Eimskip skipunum úr leigu til eiganda á vormánuðum, fyrr en upphaflega var gert ráð fyrir. Í kjölfarið tók eigandi skipanna ákvörðun um að selja skipin í endurvinnslu á Indlandi og kom Eimskip hvergi nálægt þeirri ákvörðun né með hvaða hætti skipin tvö voru endurunnin.
Eimskip hefur aflað upplýsinga frá Umhverfisstofnun sem hefur nú upplýst félagið að stofnunin hafi í vikunni kært félagið til embættis héraðssaksóknara sem lögaðila vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs. Eimskip hafði engar upplýsingar um þá kæru fyrr en eftir samtal við Umhverfisstofnun fyrr í dag og stofnunin aflaði engra gagna frá Eimskip vegna málsins.
Eimskip hafnar þessum ásökunum enda fylgdi félagið í einu og öllu lögum og reglum í þessu söluferli.
Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is.