Fara á efnissvæði

Á hverju ári ræður Eimskip fjölmargt sumarstarfsfólk til starfa í margs konar störf um land allt. Að þessu sinni voru fjölbreytt störf í boði víðsvegar í fyrirtækinu, til dæmis störf í vöruhúsaþjónustu, á hafnarsvæði, á skrifstofu, um borð í skipum og við akstur. Umsækjendur voru um þúsund talsins og var skiptingin á milli kynja 64% karlar og 36% konur.  

Ráðið var í um 120 sumarstörf en flest þeirra eru í vöruhúsaþjónustu eða rúm 50%. Um 20% ráðninga eru á hafnasvæði og einnig rúmlega 20% við skrifstofustörf eða í framlínustörf. Tæplega 10% umsækjenda eru svo ráðnir í önnur störf.   

Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs: 

“Á hverju sumri ráðum við töluverðan fjölda af ungu fólki til starfa hjá Eimskip sem kemur af krafti inn í starfsemina og það er gaman að sjá ungt fólk fá tækifæri til að þroska sig og þróa í gegnum spennandi störf á vinnumarkaði.  Tæplega helmingur sumarstarfsfólksins eru 20 ára og yngri og um fjórðungur konur. Við leggjum áherslu á að það hlutfall kvenna fari hækkandi enda mikilvægt að hafa fjölbreytni og jafnvægi í starfsmannahópi félagsins en margir núverandi starfsmenn Eimskips stigu sín fyrstu skref á vinnumarkaði í sumarstarfi hjá félaginu.”