Fara á efnissvæði

Eimskip útskrifaði nýlega hóp starfsfólks úr alþjóðlegri leiðtogaþjálfun fyrirtækisins, en hópurinn er sá fjórði sem lýkur við þjálfunina. Leiðtogaþjálfunin gegnir lykilhlutverki í þróun leiðtoga og samvinnu milli landa og eininga ásamt því að styðja við menningarlegar breytingar innan fyrirtækisins.  

Alls tóku 25 starfsmenn frá 11 löndum þátt í náminu þetta árið. Hópurinn varði fimm dögum saman í Reykjavík þar sem þátttakendur fóru í gegnum fjölbreytta leiðtogaþjálfun.  

Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs, leggur áherslu á mikilvægi leiðtogaþjálfunarinnar við mótun framtíðarforystu félagsins. “Starfsfólk okkar er drifkraftur allra þeirra breytinga sem móta eftirsóknarverðan vinnustað og saman skapar það menningu sem einkennist af metnaði, dýnamískum samskiptum og sterkri liðsheild, segir Edda. “Við viljum þróa leiðtoga sem þora að taka af skarið, ganga fram með góðu fordæmi og hvetja aðra til að ná árangri”.  

Leiðtogaþjálfunin byggir á leiðtogalíkani og arftakaáætlun fyrirtækisins og styður þátttakendur við að ná árangri í síbreytilegu viðskiptaumhverfi. 

Rík áhersla er lögð á á fjölbreytileika og jöfn tækifæri þegar kemur að þátttakendum, sem sést hvað best í því að konur eru 52% útskriftarnema í gegnum tíðina.  

„Flutningageirinn er heilt á litið karllæg atvinnugrein og því leggjum við sérstaka áherslu á fjölbreytileika og höfum sett okkur markmið um að konur skipi að lágmarki 40% af stjórnendastöðum fyrirtækisins. Leiðtoganámið og virk arftakaáætlun gegna lykilhlutverki á þeirri vegferð” segir Edda. 

Ávinningur námsins er auðséður í faglegri starfsþróun þátttakenda innan félagsins. Alls hafa 28% útskriftarnema öðlast framgang í starfi, þar af 22 konur, sem sýnir afrakstur námsins þegar kemur að því að undirbúa starfsfólk fyrir leiðtogahlutverk.  

Þátttakendur eru afar ánægðir með þjálfunina og gefa náminu eftirtektarverða NPS einkunn upp á 100 og heildaránægjustig uppá 5 af 5 mögulegum svo ljóst er að þátttakendur meta reynsluna mikils. 

Þegar spurt er um persónulegan ávinning af leiðtoganáminu lýsti einn þátttakandi jákvæðum áhrifum þess á leiðtogahæfileika sína og persónulegan vöxt: 

“Ég hef tileinkað mér aðferðir sem gera mér kleift að hvetja og hrósa öllum í teyminu þegar á þarf að halda. Þá hef ég einnig eflt sjálfstraust mitt til muna og veit að næst þegar ég kem með nýjar hugmyndir þá er hlustað á mig. Ég hef einnig öðlast trú á eigin getu til að takast á við fjölbreyttar áskoranir sem verða á vegi mínum”.  

Þegar annar þátttakandi var beðinn um að deila upplifun sinni á náminu sagði viðkomandi: “Hápunktur námsins er hvernig ég hef vaxið sem leiðtogi. Ég uppgötvaði nýja hlið á eigin sjálfstrausti, tileinkaði mér nýja færni ásamt því að við lærðum margt af hvert öðru. Þetta var ómetanleg reynsla og stemmningin í hópnum var einstök”.  

Eimskip fagnar þessum nýja útskriftarárgangi og leggur áframhaldandi áherslu á að skapa starfsfólki tækifæri til vaxtar og starfsþróunar. Leiðtogaþjálfunin er þessum áherslum til staðfestingar og tryggir að félagið muni halda áfram að styrkja og hvetja leiðtoga innan fyrirtækisins og veita þeim innblástur.