Samstarf Eimskips og grænlenska skipafélagsins Royal Arctic Line (RAL) mun hefjast þann 12. júní n.k. þegar Tukuma Arctica nýja skip RAL siglir frá Danmörku til Íslands. Nýtt skip Eimskips, Dettifoss, var afhent í lok apríl í Kína og er nú á heimsiglingu. Dettifoss kemur inn í samstarfið í byrjun júlí þegar hann siglir frá Árósum til Íslands í fyrsta sinn. Áætlað er að seinni nýsmíði Eimskips, Brúarfoss, verði kominn í þjónustu félagsins undir lok október. Frá og með þeim tíma verður samstarfið við RAL komið í fulla virkni með þremur gámaskipum og vikulegum siglingum til fleiri hafna eins og upphaflega var áætlað.
Þegar samstarfið við RAL hefst um miðjan júní mun Eimskip aftur hefja siglingar á rauðu leiðinni en Dettifoss og Tukuma Arctica munu sinna þjónustu við Ísland og Grænland með viðkomum í Álaborg og Árósum í Danmörku og Helsingborg í Svíþjóð.
Núverandi siglingakerfi verður að öðru leiti óbreytt með sínar sterku tengingar við lykilhafnir í Skandinavíu og Evrópu en með samstarfinu við RAL og nýju skipunum eykst áreiðanleiki og afkastageta til og frá Skandinavíu.
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri:
„Þetta eru merk tímamót í sögu félagsins, ekki eingöngu erum við að taka á móti nýju og glæsilegu skipi sem er það stærsta sem hefur nokkru sinni verið í þjónustu félagsins heldur erum við á sama tíma að hefja samstarf við grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line. Með samstarfinu tengist Royal Arctic Line alþjóðlegu siglingakerfi Eimskips sem opnar möguleika fyrir grænlenska markaðinn sem og að vikulegar siglingar verða nú á milli Íslands og Grænlands. Þegar fram í sækir mun það skapa tækifæri á auknum viðskiptum á milli landanna tveggja.
Við erum einnig afar stolt af því að fá Dettifoss í þjónustu félagsins en aðalvél skipsins er sérstaklega útbúin til að minnka losun köfnunarefnis í andrúmsloftið og er sparneytnari þannig að kolefnisfótspor á flutta gámaeiningu er umtalsvert minna en á eldri skipum. Að auki eru skipið útbúið vothreinsibúnaði sem minnkar enn frekar losun brennisteins í andrúmsloftið. Með þessu tryggjum við enn frekar að við séum að bjóða umhverfisvænustu flutningana til og frá landinu þegar horft er á flutta einingu sem skiptir viðskiptavini okkar sífellt meira máli.“
Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is.
Ljósmynd: TSL Shipping and Trading