Hjálmurinn skiptir máli
Árið 2025 eru 21 ár liðin frá því að Eimskip og Kiwanishreyfingin á Íslandi hófu samstarf um að færa öllum börnum í fyrsta bekk landsins reiðhjólahjálm að gjöf. Síðan verkefnið hófst árið 2004 hafa um 90.000 hjálmar verið afhentir og mörg börn hafa fengið sinn fyrsta hjálm í tengslum við verkefnið. Í ár munu um 4.500 börn fá hjálm að gjöf ásamt buffi og endurskinsmerki.
„Við erum sérstaklega stolt af því að hafa í 21 ár lagt okkar af mörkum til þessa mikilvæga verkefnis í traustu og árangursríku samstarfi við Kiwanishreyfinguna á Íslandi. Í sameiningu höfum við einsett okkur að styðja við öryggi og velferð ungra vegfarenda, sem eru að stíga sín fyrstu skref í umferðinni“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
Samfélagsábyrgð og öryggi
Eimskip rekur fjölbreytta og umfangsmikla starfsemi þar sem fjöldi skipa, tækja, stórra sem smárra, vöruhús og frystigeymslur eru í stöðugri notkun. Á hverjum degi aka um 100 flutningabílar félagsins um vegi landsins til að koma verðmætum varningi á áfangastað, örugglega og áreiðanlega. Í slíku umhverfi er öryggi ávallt í forgrunni og rík áhersla er lögð á fræðslu og vitundarvakningu í öryggismálum, bæði innan fyrirtækisins og í samfélaginu í kringum okkur. Öryggisbúnaður þarf að vera rétt stilltur og notaður með ábyrgum hætti, og sú þekking er mikilvægur hluti af forvarnastarfi félagsins.
Við viljum hvetja foreldra og forráðamenn að heimsækja vefsíðu Eimskips þar sem má finna einfaldar leiðbeiningar um hvernig stilla má hjálm til að hann sitji rétt á höfði, svo börnin hjóli örugg inn í sumarið.
Er þinn hjálmur rétt stilltur - verum ofurörugg.