Fara á efnissvæði

Í lok mars héldu 6 starfsmenn Eimskips til Kína til að taka þátt í svokallaðri prufusiglingu á Dettifossi en þá er virkni skipsins prófuð með skipasmíðastöðinni í Kína. Þeirri prufusiglingu er lokið og gekk hún í heildina vel. Í síðustu viku héldu svo 11 starfsmenn Eimskips til viðbótar utan til sigla skipinu heim.

Bragi Björgvinsson er skipstjóri á Dettifossi og tók þátt í prufusiglingu á skipinu. Bragi hefur starfað hjá Eimskip í 35 ár. Braga líst vel á nýju skipin „Nýja skipið eru vel búið að öllu leiti og auðvitað miklu stærri en gömlu skipin okkar. Skipið er hærra á sjónum svo það verður gaman að sjá hvernig það reynist í Atlantshafinu.“ segir Bragi. Prufusiglingin gekk í heildina mjög vel en auðvitað kom eitt og annað upp sem þarfnast úrbóta og er skipasmíðastöðin í Kína þegar byrjuð að vinna í því en sú vinna gengur ágætlega að sögn Braga. Nú eru 17 starfsmenn Eimskips komnir til Kína og munu á næstu vikum sigla Dettifossi heim til Íslands.

Skipin sem eru um 180 metrar að lengd (nánast eins og tveir fótboltavellir) og 31 metri að breidd rúma 2150 gámaeiningar og verða stærstu skipin sem hafa verið í íslenska flotanum til þessa. Skipin eru útbúin góðum stjórnbúnaði og með svokallaða TIER III vél sem er sérstaklega útbúin til að draga úr útblæstri köfnunarefnis út í andrúmsloftið. Einnig eru skipin útbúin sérstökum olíuhreinsibúnaði sem dregur úr útblæstri á brennisteini og því umhverfisvænni en eldri skip félagsins. Skipin eru vel búin til siglinga í Norður Atlantshafi enda búin ísklassa og hönnuð með tilliti til skilyrða Polar Code sem er skilyrði fyrir siglingu á hafsvæði í kringum Grænland.

Sjá má svipmyndir frá prufusiglingunni í myndbandinu hér fyrir neðan.