Á þriðjudaginn hlaut Dettifoss formlega nafn við hátíðlega athöfn á Skarfabakka í Reykjavík. Öllum landsmönnum var boðið og var mikill fjöldi viðstaddur ásamt starfsmönnum, viðskiptavinum og samstarfsaðilum. Forstjóri Eimskips, Vilhelm Már Þorsteinsson, hélt ávarp og Séra Pálmi Matthíasson blessaði skipið. Eins og hefð er fyrir þá var það guðmóðir skipsins sem gaf því nafn. Að þessu sinni var það Elfa Brynja Sigurðardóttir, ráðgjafi í söludeild innflutnings og starfsmaður Eimskips til yfir 39 ára, sem fékk þann heiður. Eftir nafngift var gestum boðið að ganga um borð og njóta veitinga á bakkanum.
Dettifoss var tekinn í notkun árið 2020 og er ásamt systurskipi sínu, Brúarfossi, stærsta og umhverfisvænasta kaupskip í þjónustu við Ísland. Dettifoss er er 180 metra langur og 31 metra breiður og getur borið 2150 gámaeiningar. Skipið er með er með TIER III, 17.000 Kw aðalvél sem er sérstaklega útbúin til að minnka losun köfnunarefnisoxíðs (NOx) út í andrúmsloftið og er er mun sparneytnari á flutta gámaeiningu en eldri skip. Dettifoss er útbúinn olíuhreinsibúnaði sem minnkar enn frekar losun brennisteins (SOx) út í andrúmsloftið og er með ísklassa og uppfyllir Polar Code reglur sem er nauðsynlegt til siglinga í kringum Grænland.
Sjórn Eimskipafélagisins ákvað árið 1914 að tveimur fyrstu skipunum yrði gefin nöfn fossa og voru fyrstu nafngiftirnar Gullfoss og Goðafoss. Þessari meginreglu hefur verið haldið alla tíð síðan þegar því hefur verið við komið. Þetta er því sjötta skipið sem nefnt er Dettifoss í skipaflota Eimskips, en það var árið 1930 sem sem skip Eimskips fékk í fyrsta skiptið nafnið Dettifoss.