Fara á efnissvæði

Í gær skrifuðu Eimskip og Faxaflóahafnir undir uppfærða lóðaleigusamninga fyrir 77 þúsund fermetra lóðir í Sundahöfn og 22 þúsund fermetra lóðir á Grundartanga en samningarnir gilda til ársins 2062. Um er að ræða samninga sem tengjast uppbyggingu í Sundahöfn á undanförnum árum, meðal annars varðandi nýjan hafnarbakka.

Þess má geta að Eimskip vinnur nú að uppbyggingu og rekstri landtenginga fyrir skip í Sundahöfn í kjölfar viljayfirlýsingar sem undirrituð var á síðasta ári á milli Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Faxaflóahafna, Veitna, Reykjavíkurborgar og Eimskips. Landtenging skipa er mikilvægur áfangi í orkuskiptum við Sundahöfn en búnaðurinn mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og staðbundinni loftmengun frá starfseminni við hafnarsvæðið ásamt því að vera hljóðlátari kostur en að nýta ljósavélar skipa. Eimskip vinnur nú að uppsetningu á búnaði fyrir nýjustu gámaskip félagsins og áætlar félagið að minnka brennslu jarðefnaeldsneytis í Sundahöfn sem nemur um 240 tonnum á ári með tilkomu landtengingarinnar.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips:
„Það er ánægjulegt að klára mikilvæga samninga við Faxaflóahafnir fyrir starfsemi Eimskip í Sundahöfn.  Við höldum einnig áfram okkar vegverð í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni okkar en olíunotkun skipa telur hátt í allri losun Eimskips og því skiptir hvert skref máli.“

Á myndinni má sjá Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóra Faxaflóahafna, og Vilhelm Má Þorsteinsson, forstjóra Eimskips, við undirritunina.