María Björk Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Fjármálasviðs Eimskips en Egill Örn Petersen, sem hefur verið fjármálastjóri frá ársbyrjun 2019, hefur sagt stöðunni lausri vegna persónulegra ástæðna og mun taka við nýju starfi á Fjármálasviði.
María Björk hefur síðastliðin sjö ár starfað sem framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags (áður Almenna leigufélagið), eins af stærstu fasteignafélögum landsins, en hún hefur leitt félagið frá stofnun. Sem framkvæmdastjóri bar hún m.a. ábyrgð á að byggja upp innviði félagsins, hafði yfirumsjón með fjárfestingum og fjármögnun sem og að annast samskipti við fjárfesta og aðra hagaðila. Þá leiddi hún nýlega vel heppnaða endurmörkun félagsins undir nýju vörumerki og sölu þess í framhaldinu til Langasjávar ehf.
María Björk er með B.Sc. í rekstrarverkfræði með áherslu á fjármál frá Háskólanum í Reykjavík og próf í verðbréfaviðskiptum. María er í sambúð með Ellerti Arnarsyni og saman eiga þau tvö börn.
María Björk hefur störf í september og mun Egill Örn gegna starfinu þangað til.
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri:
"María Björk hefur leitt umfangsmikil og krefjandi verkefni í sínu fyrra starfi með góðum árangri og hefur getið sér gott orð sem ungur og drífandi stjórnandi. Með komu hennar breikkar reynsla og þekking í framkvæmdastjórn félagsins sem er jákvætt og í takti við þá vegferð sem við höfum verið á. Ég vil nota tækifærið og þakka fráfarandi fjármálastjóra, Agli Erni, sérstaklega fyrir hans góða starf og það er mikils virði fyrir félagið að njóta krafta hans og reynslu áfram í nýju hlutverki."