Evrópusambandið (ESB) hefur innleitt breytingar á reglugerðum sínum um tollafgreiðslu sem varða sjóflutninga. Breytingarnar innleiða nýtt innflutningskerfi sem kallast Import Control System 2 (ICS2) og miða að því að bæta áhættustjórnun og öryggi í vörusendingum til ríkja ESB. Innleiðing kerfisins er í þremur hlutum og tekur þriðji og síðasti hlutinn til sjóflutninga eftir 4. desember nk. ICS2 gerir aukna kröfu um upplýsingagjöf á vörum sem sendar eru til eða um landamæri ESB og þurfa fyrirtæki sem flytja vörur til ESB að taka mið af þeim.
Viðskiptavinir Eimskips sem flytja vörur til eða um landamæri ESB þurfa að gæta að því fyrir sendingu að:
- Fyrstu 6 stafir tollskrárnúmers (HS code) séu til staðar fyrir allar vörur til ESB.
- Ítarleg vörulýsing, sem nær til þyngdar og fjölda hvers HS númers auk upplýsinga um seljanda og kaupanda vörunnar, sé til staðar.
- Viðtakandi (innflytjandi í ESB ríki) sé með EORI (Economic Operator Registration and Identification) númer. EORI númer er útgefið af tollyfirvöldum ESB ríkja og ekki er hægt að fá slíkt númer útgefið af íslenskum yfirvöldum.
Eimskip vinnur nú að því að undirbúa ferla og tölvukerfi fyrir innleiðingu ICS2 og þær kröfur sem munu fylgja til þess að auðvelda og tryggja miðlun upplýsinga í kerfið. Félagið mun birta frekari upplýsingar, eftir því sem þær berast frá yfirvöldum, og leiðbeiningum þegar nær dregur.
Vakin er athygli á því að upplýsingagjöf vegna ICS2 er tilkomin að kröfu yfirvalda ESB ríkja og afleiðingar þess að skila ekki gögnum geta verið seinkun á afgreiðslu á landamærum, neitunar um tollafgreiðslu eða synjunar á tollskýrslum með ófullnægjandi upplýsingum. Í sumum tilfellum geta verið viðurlög þegar ekki er farið eftir tilskildum ákvæðum.
Viðskiptavinum er bent á að hafa samband ef þeir hafa frekari spurningar um ICS2 en einnig má nálgast upplýsingar á heimasíðu Skattsins eða vefsvæði Evrópusambandsins.