Fara á efnissvæði

Verkefnið „Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn og fullorðna til þess að gleðja börn sem sem lifa við fátækt, sjúkdóma og aðra erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir.

Verkefnið fór af stað hér á landi árið 2004 og hefur Eimskip verið styrktaraðili þess frá upphafi. Fyrsta árið söfnuðust um 500 gjafir en síðan þá hefur fjöldinn margfaldast og nú safnast árlega um og yfir 5000 gjafir og er heildarfjöldinn því kominn í rúmlega 70.000 gjafir frá því verkefnið fór af stað hérlendis. Gjafirnar eru sendar til Úkraínu þar sem þeim er dreift af KFUM á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt. Gjafirnar eru settar í skókassa og til að tryggja að öll börn fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.

Síðustu skiladagar fyrir jól í skókassa eru í þessari viku en síðasti móttökudagur verkefnisins á höfuðborgarsvæðinu, að Holtavegi 28, 104 Reykjavík, er í laugardagurinn 14. nóvember. Nú þegar hafa safnast fjölmargar gjafir en búið er að yfirfara um 2.200 pakka sem eiga eftir að gleðja fjölda barna.

Skrefin frá því að gjöf er pakkað í skókassa og þar til hún er afhent viðtakanda eru mörg. Hver einasti pakki sem berst er yfirfarinn til þess að ganga úr skugga um að innihald gjafanna sé svipað þar sem þær eru í flestum tilvikum afhentar mörgum börnum í einu á sama stað t.d. á munaðarleysingjahælum og því mikilvægt að upplifun krakkanna sé góð. Gengið er úr skugga um að innihaldið sé í lagi og reynt að bæta í pakka ef eitthvað vantar upp á. Hver gjöf er svo merkt kyni og aldri þannig að allir fái pakka við hæfi og því ljóst að mikil vinna liggur að baki svo þetta sé eins og best verður á kosið.

Við hvetjum alla til þess að taka þátt í þessu gefandi verkefni KFUM og KFUK en allar nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.