Kraninn Jakinn sem stendur við Sundahöfn á 40 ára afmæli þessa dagana. Þessi fyrsti gámakrani Eimskips var tekinn í notkun þann 10. nóvember 1984 og var svo formlega vígður 17. nóvember sama ár. Það var mikil bylting í starfseminni við Sundahöfn þegar hann kom á sínum tíma enda jókst hagkvæmni og hraði við lestun og losun skipa til muna. Nafnið á krananum vísar í Guðmund „Jaka“ Guðmundsson fyrrum formann Dagsbrúnar sem lengi vel var í forystu fyrir hafnarverkamenn.
Eimskip er með 12 krana í rekstri sínum en á hafnarsvæðinu í Reykjavík eru nú 5 gámakranar, þau Straumur, Stormur, Alda og Bára auk Jakans en öll eiga þau það sameiginlegt að nota rafmagn í stað jarðefnaeldsneytis. Bára, formlegur arftaki Jakans, var tekin í notkun fyrr á árinu en með komu hennar jókst skilvirkni í hafnarvinnu við Sundahöfn enn frekar sem styður við það markmið Eimskips að bjóða viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu.
Á næsta ári kemur að þeim tímamótum að Jakinn kveður og verður tekinn niður eftir langa farsæla þjónustu. Kraninn er búinn að hífa 2.050.253 híf og vinna 110.000 vinnustundir. Alls hefur hann á þessum 40 árum híft yfir 25 milljón tonn.
Til að fagna afmæli Jakans og farsælli þjónustu í 40 ár var starfsfólki boðið til veislu á hafnarsvæðinu í dag.