Innleiðing á ETS-kerfi Evrópusambandsins (Emission Trading System) í skipaflutningum
14. janúar 2024Þann 1. janúar 2024 mun viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (Emission Trading System, ETS) á skipum yfir 5.000 brúttótonn taka gildi. Í því felst að útgerðir og eigendur skipa verða skylduð til að kaupa og skila til yfirvalda losunarheimildum af CO2 útblæstri siglinga. Löggjöfin er innleidd hér á landi í gegnum EES-samninginn. Á sama tíma mun Eimskip hefja innheimtu sérstaks ETS gjalds.
Innleiðing ETS-viðskiptakerfisins mun eiga sér stað í þremur skrefum:
- Árið 2024 þarf að skila losunarheimildum sem nema 40% af losun
- Árið 2025 þarf að skila losunarheimildum sem nema 70% af losun
- Frá og með árinu 2026 skal skila losunarheimildum til móts við alla losun
Eimskip hefur sett sér það markmið að ná kolefnishlutleysi (net zero) fyrir árið 2040 og hefur náð góðum árangri á síðustu árum með aukinni skilvirkni og stærðarhagkvæmni í siglingakerfi sínu. Unnið hefur verið að aðgerðum sem miða beinlínis að því að draga úr olíunotkun og kolefnislosun og þannig minnka þau óhjákvæmilegu fjárhagslegu áhrif sem ETS hefur á kostnað við rekstur siglingakerfisins. Þannig er áætlaður kostnaður við kaup á losunarheimildum á næsta ári umtalsvert lægri en hann hefði orðið ef ekki hefði verið gripið til umræddra aðgerða sem eru meðal annars:
- Nýtt, umhverfisvænna og áreiðanlegra siglingakerfi kynnt í nóvember sem stuðlar að minni losun CO2 eða um 14% minna m.v. siglingakerfi Eimskips á síðasta ári. Sjá hér: Nýtt siglingakerfi
- Fjárfesting í hafnarkrönum og aukinni skilvirkni í höfnum við starfsemi losunar og lestunar skipa
- Landtengingar skipa við rafmagn
- Undirbúningur fyrir hönnun og nýsmíði skipa sem geta gengið fyrir umhverfisvænum orkugjöfum
- Stöðug vöktun á rekstri skipa með markmið um sem besta nýtingu orkugjafa
Þrátt fyrir þessar aðgerðir gerir Eimskip ráð fyrir umtalsverðum kostnaði við kaup á losunarheimildum á árinu 2024 sem fer stigvaxandi þar til kerfið verður að fullu innleitt árið 2026. Eimskip mun því innleiða ETS gjaldið í gjaldskrá sína frá og með 1. janúar næstkomandi. Gjaldið verður uppfært mánaðarlega í takt við þróun á verði losunarheimilda. Sjá hér: EU Carbon permits.
Vakin er athygli á að reglugerð íslenskra yfirvalda er enn í vinnslu og óvíst er hvernig framkvæmd laganna verður útfærð með tilliti til íslenskra séraðstæðna. Að mati Eimskips þarf að horfa til þess að aðgengi að öðrum umhverfisvænni flutningsleiðum er ekki til að dreifa hér, ólíkt meginlandi Evrópu. Ef horft verður til þessara sjónarmiða og stjórnvöld ákveða að koma á einhvern hátt til móts við íslensk atvinnulíf vegna sjóflutninga tengdum Íslandi mun Eimskip uppfæra gjaldskrá sína til samræmis. Eimskip mun áfram tala fyrir því að stjórnvöld horfi til þess hvernig ná megi markmiðum um kolefnishlutleysi án þess að skerða samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart öðrum sem starfa á evrópska efnahagssvæðinu.
Eimskip mun sömuleiðis áfram leita allra leiða til að hagræða og draga úr umhverfisáhrifum siglingakerfisins og með því draga úr þörf fyrirtækisins fyrir losunarheimildir og þar með gjaldtöku vegna þeirra.
GJALDSKRÁ ETS 2024
Gjaldskráin 2024 miðast við nýtt og umhverfisvænna siglingakerfi og tekur mið af þróun einingaverðs losunarheimilda ETS. Eimskip mun tilkynna viðskiptavinum hvert gjaldið verður í komandi mánuði með fyrirvara fyrir hver mánaðamót og birta það á heimasíðu sinni. Í gjaldskránni að neðan er tekið dæmi ef meðalverð losunarheimilda yrði €70 per tonn. Þá væri viðskiptavinur sem flytur vörur til eða frá Evrópu að greiða €17 fyrir hverja gámaeiningu (TEU).
Hér má skoða ETS gjaldskrá Eimskips.
Frekari upplýsingar veita viðskiptastjórar félagsins og eins má finna upplýsingar á heimasíðu félagsins www.eimskip.com/ets.