Fara á efnissvæði

Á næstu vikum mun Eimskip, í samstarfi við Kiwanishreyfinguna á Íslandi, afhenda hjálma til allra barna í 1. bekk á Íslandi, en um er að ræða yfir 4.000 hjálma. Samstarf Kiwanis og Eimskips hefur staðið yfir frá árinu 2004 og hafa verið afhentir yfir 80.000 hjálmar á þeim tíma.

Ein af megináherslum Eimskips er að stuðla að öryggi og forvörnum, hvort sem er í leik eða starfi. Hjálmaverkefnið eitt af þeim verkefnum þar sem Eimskip kemur góðu til leiðar með því að stuðla að öryggi barna í umferðinni.

Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs:
„Sumarið kemur hjá okkur í Eimskip þegar við hefjum dreifingu á hjálmunum ár hvert, ásamt Kiwanishreyfingunni. Öryggis- og forvarnarmál eru afar mikilvæg í okkar rekstri og því stendur hjálmaverkefnið okkur ansi nærri þar sem verkefninu er ætlað að stuðla að umferðaröryggi yngsta hjólreiðafólks landsins. Við erum afar stolt af því að geta komið góðu til leiðar með þessu mikilvæga verkefni í góðu samstarfi við Kiwanishreyfinguna á Íslandi.“

Í ár kynnum við nýtt og uppfært útlit á hjálminum en Bjarki Lúðvíksson, grafískur hönnuður á auglýsingastofunni Hvíta húsinu, hannaði nýja útlitið: „Meginmarkmið mitt var að hanna hjálm sem krakkarnir myndu vilja nota og út frá því vildi ég gera hjálminn töff og smart en samt sportlegan. Ég stunda sjálfur töluvert af utanvegahlaupum og hjóla á fjallastígum á fulldempuðu fjallahjóli. Það sem tengist íþróttum af þessu tagi er mikið af fatnaði og fylgihlutum sem oft eru mjög lifandi í útliti, í glannalegum litum og formum. Allir þessir þættir höfðu klárlega áhrif á mig við hönnun hjálmsins.“

Við hvetjum alla foreldra til að kynna sér leiðbeiningar á vefnum okkar en þar má lesa allt um það hvernig hjálmarnir eru rétt stilltir svo börnin hjóli örugg inn í sumarið.

Er þinn rétt stilltur?