Stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands hefur ákveðið að verja 127,5 milljónum króna í styrki til doktorsnema við Háskóla Íslands í ár.
Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var settur á laggirnar af Vestur-Íslendingum árið 1964 þegar þeir lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og er helsta verkefni sjóðsins að styrkja efnilega stúdenta til náms við Háskóla Íslands. Sjóðurinn er í umsýslu Landsbankans.
Stjórn Rannsóknasjóðs HÍ annast úthlutun úr sjóðnum en stjórn Háskólasjóðsins ákvarðar fjárhæð styrkja á hverju ári.
Hafa úthlutað 1,6 milljörðum
Alls hafa 176 stúdentar þegar fengið styrki frá því að farið var að greiða styrki úr sjóðnum með reglubundnum hætti árið 2006.
Heildarúthlutun styrkja nemur nú rúmum 1,6 milljörðum króna, en þar af voru greiddar 500 milljónir króna til byggingar Háskólatorgs á árunum 2006 og 2007.
„Háskólasjóður h/f Eimskipafélags Íslands hefur skipt Háskóla Íslands afar miklu máli. Með stuðningi við doktorsnám við Háskóla Íslands hefur sjóðurinn í senn eflt skólann mjög sem rannsóknaháskóla og skapað stórum hópi doktorsnema tækifæri til fjölbreyttra starfa víða í samfélaginu og raunar um allan heim. Frá því að fyrstu doktorsstyrkjunum var úthlutað úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins árið 2006 hafa 175 doktorsnemar af öllum fræðasviðum skólans notið stuðnings úr sjóðnum og á þessum tíma hafa brautskráningar doktorsnema frá Háskóla Íslands margfaldast. Háskólasjóður Eimskipafélagsins studdi einnig dyggilega við byggingu Háskólatorgs, hjarta Háskólans, og fyrir það erum við afar þakklát,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Á myndinni hér að ofan er stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands. Frá vinstri: Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Helga B. Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans og stjórnar sjóðsins, Vigdís Sif Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins og viðskiptastjóri í Eignastýringu Landsbankans.