Sá áfangi náðist nú í sumarbyrjun að lokið var við að rafvæða gámakranana Storm og Gretti. Þar með nýta allir kranar Eimskips á hafnarsvæðinu í Reykjavík rafmagn í stað jarðefnaeldsneytis. Alls eru 4 gámakranar á svæðinu Jakinn, Grettir, Stormur og Straumur sem er nýjasti krani Eimskips.
Það er ekki hlaupið að því að rafvæða hafnarkrana. Starfsmenn rafmagns- og vélarverkstæðis Eimskips komu beint að verkinu auk erlendra samstarfsaðila en breyta þurfti tæknibúnaði krananna til að taka rafstraum frá landi í stað díeselvéla.
Eitt stærsta sjálfbærniverkefni Eimskips er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en félagið hefur sett sér metnaðarfullt markmið varðandi það. Verkefni tengd gróðurhúsalosun eru beintengd heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um aðgerðir í loftlagsmálum en Eimskip leggur einmitt áherslu á það markmið.
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri:
„Þetta er jákvætt skref í rétta átt á sjálfbærnivegferð Eimskips. Við leggjum mikla áherslu á að þekkja þær áhættur sem snúa að sjálfbærni í rekstrinum okkar og vinnum markvisst að því að draga úr þeim. Ekki aðeins færumst við nær markmiði okkar að draga úr kolefnisfótspori Eimskips um 40% fyrir árið 2030 heldur hefur þessi breyting jákvæð áhrif á aðra þætti í starfsemi okkar eins og staðbundinni loftmengun frá starfseminni og hljóðvist.“