Fara á efnissvæði

Eimskip úthlutaði í gær úr Listasjóði félagsins í fyrsta sinn.

Á 110 ára afmæli félagsins 17. janúar 2024 var ákveðið að stofna nýjan listasjóð í þeim tilgangi að efla upprennandi myndlistarmenn á Íslandi í sinni listsköpun. Árleg úthlutun sjóðsins er þrjár milljónir króna og skiptist sú upphæð milli þeirra tveggja til þriggja listamanna sem verða fyrir valinu hverju sinni. Alls bárust sjóðnum 119 umsóknir á þessu fyrsta ári úthlutunar og því ljóst að áhuginn á verkefninu er mikill.

Eimskip hefur rík söguleg tengsl við íslenska myndlist, en allt frá stofnun félagsins hafa forsvarsmenn þess vitað mikilvægi þess að styðja við ýmsa menningarstarfsemi. Það hefur félagið gert með því að fjárfesta í myndlist og hafa íslenskir myndlistarmenn sem svifið hafa seglum þöndum á vit ævintýranna utan landsteinanna löngum notið velvilja félagsins. Safneign félagsins telur hundruði verka og voru valin verk sýnd í janúar á 110 ára afmæli félagsins á listasýningunni Hafið hugann ber.

Val á styrkþegum er í höndum myndlistarnefndar Eimskips, en hana skipa Óskar Magnússon, stjórnarformaður félagsins og rithöfundur, Guðmundur Hagalínsson, fyrrum starfsmaður Eimskips til áratuga með sérþekkingu á safneign félagsins og Katrín Eyjólfsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar Hafið hugann ber.

Þrír styrkhafar í fyrstu úthlutun

Listamennirnir þrír sem urðu fyrir valinu að þessu sinni og hljóta styrk upp á eina milljón króna á mann eru þau Baldvin Einarsson, Helena Margrét Jónsdóttir og Matthías Rúnar Sigurðsson.

Baldvin Einarsson er fæddur 1985 og er búsettur í Antwerpen í Belgíu. Í umsögn dómnefndar segir:
„Baldvin vinnur að því að skapa skýrar myndlíkingar sem varpa ljósi á óskýr og óræð fyrirbæri. Í verkum sínum leggur hann áherslu á leik og tilfinningar og leitast við að tjá hið ósegjanlega í gegnum listræna tjáningu. Með þessari nálgun býr hann til verk sem ögra bæði skynjun og hugsun áhorfandans.“

Helena Margrét Jónsdóttir er fædd 1996 og er búsett í Reykjavík.
„Helena Margrét fæst við raunsæis olíumálun þar sem hún sameinar hefðbundna tækni og tímalaus viðfangsefni með nútímalegum blæ. Í verkum sínum rannsakar hún flókið samband milli þess girnilega og ógeðslega og veltir upp spurningum um löngun og óþægindi. Hún tekst á við viðfangsefni á borð við blóm, vín, skordýr og hendur ásamt nútímalegum hlutum sem tákna girnd í dag, eins og sælgæti, gosdrykki, skó og handtöskur. Með þessari nálgun býr hún til verk sem ögra skynjun áhorfandans og bjóða upp á marglaga túlkun.“

Matthías Rúnar Sigurðsson er fæddur 1988 og er búsettur í Reykjavík.
„Matthías Rúnar sýnir einstaka hæfni til að sameina forvitni, sköpun og frásögn í list sinni, þar sem hann notar stein sem miðil til að kanna tímalaus áhrif myndmálsins. Verk hans eru djúpstæðar rannsóknir á sjónarhorni, menningarsögulegum tengingum og áhrifum listar á áhorfandann. Með því að brúa bilið milli hins gamla og nýja býr hann til verk sem bæði viðhalda arfleifð og ýta undir nýja nálgun í höggmyndalist.“

Þessi fyrsta styrkveiting úr Listasjóði Eimskips í lok 110 ára afmælisárs félagsins rammar því vel inn árið sem hófst með listasýningunni Hafið hugann ber, þar sem höfuðstöðvarnar voru opnaðar almenningi og sagan og listin fengu að njóta sín.