Fara á efnissvæði
Þriðjudaginn 10. september framkvæmdi Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Eimskipafélagi Íslands hf. og dótturfélögunum Eimskip Ísland ehf. og TVGZimsen ehf. á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur. Í tengslum við umfjöllun um upplýsingagjöf Eimskips vill félagið koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.Samkeppniseftirlitið fékk mjög víðtæka heimild til að afla gagna og upplýsinga samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.Eimskip hefur óskað eftir aðgangi að upplýsingum þeim sem liggja að baki húsleitarbeiðni Samkeppniseftirlitsins til Héraðsdóms Reykjavíkur. Enn hefur ekki verið orðið við þeirri beiðni og því er Eimskip ómögulegt á þessari stundu að átta sig frekar á því á hvaða grunni úrskurðað var um heimild til húsleitar eða í hverju meint brot félagsins eiga að hafa falist. Því er Eimskip ekki í neinni stöðu til að tjá sig frekar um málið en fram hefur komið í tilkynningu til Kauphallar og vangaveltur um mögulega niðurstöðu rannsóknarinnar eru því með öllu ótímabærar og óábyrgar.Í fjölmiðlaumfjöllun hefur komið fram að Samkeppniseftirlitið hafi lokið gagnaöflun í bili og að nú sé verið að vinna úr gögnunum. Óljóst er á þessari stundu hversu langan tíma sú vinna muni taka. Eimskip vonast til þess að athugun Samkeppniseftirlitsins ljúki hið fyrsta.