Fara á efnissvæði

Það að veita óháðum rekstraraðila einokunarstöðu við Sundahöfn myndi lækka þjónustustig og sveigjanleika í þjónustu við íslensk fyrirtæki í inn- og útflutningi, minnka samkeppnishæfni virðiskeðjunnar til og frá Íslandi ásamt því að vera til þess fallið að hækka kostnað neytenda til lengri tíma litið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Portwise sem ber heitið Sundahöfn Development Reassessment. Towards optimised logistics for the Icelandic market. Portwise er leiðandi ráðgjafafyrirtæki í heiminum á sviði flutningaþjónustu í höfnum, hafnarsvæðum og vöruhúsum og hefur komið að rúmlega eitt þúsund verkefnum, þ.m.t. hönnun og endurbótum á yfir 200 hafnarsvæðum í rúmlega 85 löndum í sex heimsálfum. 

Árið 2022 birtu Faxaflóahafnir á heimasíðu sinni skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Drewry varðandi skipulagsvalkosti við Sundahöfn. Í henni eru dregnar upp fimm sviðsmyndir framtíðarskipulags. Sú sviðsmynd sem Drewry mat ákjósanlegasta var að eitt félag í eigu óháðs rekstraraðila fengi einokunarstöðu á höfninni.

Portwise var falið það verkefni af Eimskip að skoða niðurstöður úr skýrslu Drewry og leggja sjálfstætt og hlutlægt mat á þær út frá hagkvæmasta kosti fyrir Faxaflóahafnir og íslenskt samfélag. Í skýrslu Portwise kemur afdráttarlaust fram að núverandi fyrirkomulag hafnarþjónustu, þ.e. samþætting gámahafnar og vöruafgreiðslu í samkeppni, sé það ákjósanlegasta. Bent er á í skýrslunni að alþjóðleg flutningafyrirtæki séu í raun að leitast eftir að koma upp samskonar fyrirkomulagi og nú er í Sundahöfn til að auka sitt þjónustustig. Í skýrslunni segir jafnframt að núverandi fyrirkomulag auðveldi stuttan afhendingartíma fyrir ferskvörur, stuðli að hagkvæmni í inn- og útflutningi ásamt því að bjóða uppá þann sveigjanleika sem þarf við þær aðstæður sem oft eru á Íslandi meðal annars vegna veðurs. Samkvæmt skýrsluhöfundum er mjög ólíklegt að slíkur sveigjanleiki og þjónustustig verði til staðar ef þriðja aðila yrði falið að reka höfn í einokunarstöðu. 

Eimskip hefur um árabil lagt áherslu á framúrskarandi hafnarþjónustu til viðskiptavina með hraða, áreiðanleika og sveigjanleika í fyrirrúmi enda eru þeir eiginleikar gríðarlega mikilvægir þegar kemur að samkeppnishæfni og lífskjörum eyríkis eins og Íslands.  Eimskip er nú þegar að þjónusta þriðja aðila með hafnarþjónustu við Sundahöfn. Eins og fram kemur í skýrslu Portwise þá leyfir afkastageta hafnarinnar mikinn vöxt til framtíðar og getur Eimskip nú sem áður veitt fleiri skipafélögum þjónustu sé þess óskað.  

Portwise hefur kynnt skýrslu sína  meðal annars fyrir stjórnendum Faxaflóahafna  og vonast Eimskip til þess að hún verði höfð til grundvallar í þeirri mikilvægu vinnu er varðar framtíðarskipulag Sundahafnar, enda um ríkt hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag að ræða.