Vöruflutningar eru einn af þeim þáttum sem þurfa að ganga vel þegar óvissa er í samfélaginu og geta verið eins konar lífæð í mörgum bæjarfélögum, sérstaklega á landsbyggðinni. Eins og gefur að skilja hefur slík þjónusta sjaldan skipt eins miklu máli og einmitt undanfarnar vikur.
Hafþór Halldórsson og Vilhjálmur Sigmundsson eru svæðisstjórar hjá Eimskip, Hafþór á Ísafirði og Vilhjálmur á Húsavík. Þeir segja í raun ótrúlegt hversu vel vöruflutningar innanlands hafi gengið að undanförnu miðað við ástandið í samfélaginu.
Stór þjónustusvæði með fjölbreytta starfsemi
Báðir stýra Hafþór og Vilhjálmur vöruflutningum á stórum þjónustusvæðum Eimskips, Vestfjörðum og svo Norðausturlandi, frá Húsavík til Vopnafjarðar.
„Eimskip Húsavík þjónustar allt norðausturhornið með daglegum ferðum til og frá Reykjavík og Akureyri á allt svæðið frá Húsavík austur til Vopnafjarðar. Matvara og neysluvara í verslanir á svæðinu er stór þáttur í okkar þjónustu sem og allskyns vörur fyrir fyrirtæki og einstaklinga s.s. byggingavörur, húsgögn, varahlutir og vörur fyrir netverslanir sem er flokkur í örum vexti hjá okkur,“ segir Vilhjálmur. Eimskip á Ísafirði er með daglegar ferðir til og frá Reykjavík og einnig daglegar ferðir til Bolungarvíkur, Suðureyrar og Þingeyrar ásamt tveimur ferðum í viku til Súðavíkur og Flateyrar.
Á svo stóru þjónustusvæði má auðvitað finna fjölda framleiðslufyrirtækja með margvíslega framleiðslu sem treysta á öryggi í vöruflutningum. „Þar erum við í lykilhlutverki og má jafnvel segja að við séum þeirra lífæð. Þessir framleiðendur eru með margskonar framleiðslu, allt frá matvöru eins og fiski, kjöti og grænmeti til gólflista svo eitthvað sé nefnt,“ segir Vilhjálmur.
Fiskflutningar gegna stóru hlutverki á vestur- og norðurlandi öllu og þá eru strandflutningar einnig stór hluti starfseminnar á Ísafirði. „Við erum að flytja í gámum fyrir allar helstu fisk- og rækjuvinnslur á svæðinu, sem og aðra aðila. Sá flutningur hefur aðeins dregist saman sökum þess að flest fyrirtækin hafa minnkað framleiðslu, en það er allt aftur á uppleið. Skipakomurnar eru gríðarlega mikilvægar fyrir okkur og okkar viðskiptavini og við erum vel í stakk búinn til að takast á við aukningu í gámaflutningum,“ segir Hafþór.
Loks er iðnaðurinn fyrirferðarmikill þegar kemur að flutningum. Með tilkomu kísilversins á Bakka hófust áætlunarsiglingar Eimskips til Húsavíkur aftur eftir nokkurra ára hlé og segir Vilhjálmur þessar siglingar vera mikilvægar fyrir fyrirtæki á svæðinu til að koma sinni vöru á markaði erlendis. Þá hafa Dýrafjarðargöngin á Vestfjörðum kallað á gríðarlega flutninga í nokkur ár bæði í skipum og með bílum. „Þótt farið sé að styttast í annan endann á þeim framkvæmdum þá er alltaf nóg af mjög fjölbreyttum flutningum í kringum þá framkvæmd. Við höfum allan tímann séð um alla flutninga fyrir þá, matinn sem þeir borða, tækin sem þeir vinna á, byggingarnar sem þeir hafa reist á svæðinu og allt þar á milli,“ segir Hafþór.
Oft mjög krefjandi aðstæður
Hafþór og Vilhjálmur eru sammála um að svona stór þjónustusvæði geti verið mjög krefjandi. „Að keyra ferskvöru, sem þarf að ná í flug á ákveðnum tíma, þvert yfir landið reynir mikið á bílstjórana okkar, sérstaklega þar sem veður og færð getur versnað með stuttum fyrirvara,“ segir Vilhjálmur og bætir við að daglegar áætlunarferðir sem tengi Reykjavík, Akureyri og alla leið til Vopnafjarðar séu vissulega ákveðin áskorun í sjálfu sér.
Hafþór segir að helsta áskorun Vestfirðinga sé veðrið. „Það eina sem hefur verið að valda alvöru röskunum á okkar starfsemi er þessi ógurlegi vetur sem nú er blessunarlega liðinn. Mikil óveður, snjóþyngsli og snjóflóð hafa verið að hrella okkur mikið enda þessi vetur með eindæmum harður.“ Hann segir lokanir á vegum vera algengar fyrir vestan. Flateyri hafi nánast verið í einangrun dögum saman vegna snjóflóðahættu og Súðavíkurhlíðinni hafi verið lokað í 27 skipti með tilheyrandi töfum og röskun á áætlun. „Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni var hlíðin lokuð í 325 og hálfan klukkutíma í vetur en það þýðir að hver lokun stóð yfir í 12 tíma að meðaltali,“ segir Hafþór. „Viðskiptavinir okkar hafa þó skilning á þessum aðstæðum sem við lifum við og taka þessum töfum oftast nær með stóískri ró, sem og bílstjórarnir okkar en það er mikilvægt við þessar aðstæður,“ bætir hann við.
Ótrúlega litlar raskanir vegna COVID-19
Hafþór og Vilhjálmur hafa staðið í ströngu undanfarið við að hafa umsjón með vörudreifingu um stóran hluta landsins á tímum COVID-19. „Það skiptir atvinnulífið og samfélagið allt miklu máli að vöruflutningar og sú þjónusta sem við veitum gangi hratt og örugglega fyrir sig og allir geti treyst á okkur, ekki síst á landsbyggðinni. Við hjá Eimskip finnum að við gegnum mikilvægu hlutverki í að halda fæðukeðjunni gangandi með okkar öfluga áætlunarkerfi nú sem aldrei fyrr,“ segir Vilhjálmur og Hafþór tekur undir það. „Við höfum ekki slakað á í okkar þjónustu. Viðskiptavinir okkar hafa einnig verið duglegir að aðlagast og við mætum alls staðar miklum skilningi og þolinmæði, sem og spritti,“ segir hann.
Starfsfólk Eimskips á landsbyggðinni hefur aðlagað sig fljótt breyttum aðstæðum og allir lagst á eitt. „Það hefur ekki fallið niður ein ferð frá því COVID-19 poppaði upp, þökk sé okkar góða starfsfólki sem mætir alltaf með bros á vör og sinnir því sem sinna þarf hverju sinni,“ segir Hafþór. „Allir hérna fyrir vestan virðast vera sammála um að leggjast á eitt við að halda öllu gangandi og allir alltaf til í að hliðra til ef þörf hefur verið á því.“ Hafþór segist ekki hafa misst fólk í sóttkví eða einangrun nema að mjög takmörkuðu leyti og þar beri helst að þakka góðri samvinnu allra, dugnaði við að halda fjarlægð milli manna og að sjálfsögðu blessað sprittið.
Vilhjálmur segir að undanfarnar vikur hafa vissulega verið meira krefjandi en venjulega fyrir starfsfólk. Hann segir þó verkefnastöðuna hafa verið góða þrátt fyrir stöðuna í þjóðfélaginu og það beri að þakka hversu vel starfsmenn vinna í sameiningu að halda fjarlægð við aðra, spritta og passa handþvottinn. „Allt framlínufólkið okkar, í vöruhúsinu, á skrifstofu, bílstjórar, tækjamenn, starfsmenn á hafnarsvæði og á verkstæði, leggst á eitt til að láta hjólin snúast og ekki skiptir máli hvort um stór eða lítil verkefni er að ræða. Þetta er einstakt fólk sem leggur oft mikið á sig við krefjandi aðstæður,“ segir Vilhjálmur að lokum.
Hafþór Halldórsson
Vilhjálmur Sigmundsson