Fara á efnissvæði

Zagari Salvatore, Snædís Ylfa Ólafsdóttir og Pawel Wojciech Cieslikiewicz

Undanfarnar vikur hafa verið mjög áhugaverðar og krefjandi í starfsemi Eimskips eins og víðar í atvinnulífinu. Vinnustaðnum hefur verið skipt upp í hópa og þeir sem geta unnið heima eru hvattir til þess. Þeir sem mæta til vinnu mega ekki umgangast alla sem eru á staðnum og allir þurfa að gæta ítrustu varúðar og hreinlætis í öllum sínum daglegu athöfnum.

Það skiptir miklu máli að skipin okkar haldi áfram að sigla og vörur haldi áfram að berast á milli landa og því er nauðsynlegt að tryggja að starfsemin haldist gangandi. Okkar stærstu verðmæti liggja í starfsfólkinu okkar og mikið mæðir á þeim á þessum sérstöku tímum. Mikið mæðir á framlínufólkinu okkar í vöruhúsi, á hafnarsvæði, bílstjórum og fleirum sem standa vaktina og sjá til þess að hjólin haldi áfram að snúast. Hér á eftir gefum við þessu fólki gaum og fáum smá innsýn í líf starfsfólks okkar á vettvangi.

Fjölskylda og vinir á Ítalíu

Zagari Salvatore, kallaður Pino, er starfsmaður Vöruhótelsins á Sundabakka. Hann vinnur við afgreiðslu og tínslu á vörum á svokölluðum þrönggangalyftara sem fer um þrönga ganga vöruhússins og sækir vörur í hæstu hæðir.

Pino er frá Ítalíu og hefur verið í samskiptum við vinafólk og fjölskyldu sína þar í landi. „Fjölskylda mín og vinir eru mörg hver búsett á Ítalíu þar sem ástandið hefur verið mjög slæmt en við reynum að halda sambandi eins mikið og við getum í gegnum tölvuna“ segir Pino. „Það eru allir að passa sig mjög vel í öllum samskiptum og maður hittir bara vini sína í gegnum tölvurnar núna.“

Vinnustaður í 40 metra hæð

Snædís Ylfa Ólafsdóttir er kranastjóri á hafnarsvæðinu í Sundahöfn. Hún vinnur við að losa og lesta skip í höfninni í krananum Straumi. Hennar vinnustaður er í ca. 40 metra hæð þar sem hún hífir gáma af mikilli nákvæmni.

Eins og fleiri getur Snædís ekki umgengist vinnufélaga sína eins og venjulega. „Það er búið að skipta upp matar- og kaffitímum og tryggja að dag- og kvöldvakt hittast ekki. Svo pössum við vel uppá að þrífa stjórntækin á milli vakta til að minnka líkur á smiti. Þetta er skrýtið og það verður gott að geta hitt alla vinnufélaga sína aftur.“ segir Snædís.

Tekur breyttu umhverfi með yfirvegun

Pawel Wojciech Cieslikiewicz er bílstjóri á vöruflutningabíl Eimskips. Hann vinnur við að koma vörum frá sendanda til móttakanda innanlands. Bílstjórar Eimskips aka landið þvert og endilangt í öllum veðrum og vetrarfærð til að koma sendingum á áfangastað.

Pawel segir að í sínu starfi sé breytingin ekki stórvægileg en þó séu ákveðnir hlutir öðruvísi. „Við erum að nota hanska öllum stundum og megum ekki fara inn á mörg svæði sem við máttum fara inn á áður. Í mínu starfi er ég mikið einn á akstri en maður finnur mjög fyrir þessu í samfélaginu sem heild.“ Pawel er þó jákvæður og segir sig og vinnufélaga sína taka þessu breytta umhverfi með yfirvegun.