Fara á efnissvæði

Eimskip hefur gert samstarfssamning við sundhópinn Marglytturnar þess efnis að Eimskip styrkir Ermarsundsferð þeirra í byrjun september sem gerir það að verkum að öll áheit sem söfnuð eru renna beint til umhverfisverndarsamtakanna Bláa hersins. Marglytturnar ætla að synda boðsund yfir Ermarsundið í byrjun september. Um er að ræða 34 km leið, á milli borganna Dover í Englandi og Calais í Frakklandi.

Markmið Marglyttanna með því að synda yfir Ermarsundið er að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar og mikilvægi þess að vernda auðlindir hafsins en ástand lífríkis í Ermarsundinu er mjög slæmt. Magn plasts og dreifing örplasts í sjónum er eitt af stóru umhverfisvandamálum mannkynsins þar sem það veldur lífríki sjávar miklum skaða. Ennfremur sogar örplast til sín eiturefni og örverur sem sjávardýr, meðal annars fiskar éta og á þann hátt endar örplastið og örverurnar í fæðunni.
„Starfsemi Eimskips fer að miklu leiti fram á sjó sem er umhverfisvænsti flutningsmáti eyríkja. Við erum sífellt að leita leiða til að gera betur í umhverfismálum og höfum við sett okkur markmið að minnka kolefnisspor félagsins um 40% fyrir árslok 2030 og því gleður það okkur að geta lagt okkar af mörkum og stutt þetta góða verkefni,“ segir Edda Rut Björnsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Eimskips.

„Það er ánægjulegt að geta lagt Bláa hernum lið en hann hefur á síðastliðnum 24 árum sinnt hreinsun á strandlengjum Íslands og markvisst stuðlað að vitundarvakningu um plastmengun í hafinu. Það er hvetjandi að fræðast um grænar áherslur Eimskips í þeirra starfsemi og við erum þakklátar fyrir þennan stuðning,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir sem er í sundhópnum Marglyttunum.

Marglytturnar samanstanda af sundkonunum, Sigrúnu Þ. Geirsdóttur, Þóreyju Vilhjálmsdóttur, Birnu Bragadóttur, Halldóru Gyðu Matthíasdóttur, Sigurlaugu Maríu Jónsdóttur, Brynhildi Ólafsdóttur og skipuleggjendum, Soffíu Sigurgeirsdóttur og Grétu Ingþórsdóttur. Fyrirhugað er að synda boðsundið yfir á tímabilinu 4. – 10. september en það fer eftir veðurskilyrðum hvenær verður synt yfir. Hægt er að fræðast um verkefnið á Facebook síðu hópsins. Landsmenn geta stutt við Marglyttur í AUR appinu í síma 7889966 og með því að leggja inn á reikning 0537-14-640972, kt.250766-5219.