Eimskip hefur undirritað samning við endurvinnslufyrirtækið Pure North og skuldbindur sig þar með til að endurvinna innanlands það plast sem fellur til í starfseminni á Íslandi. BM Vallá, Bláa lónið, Brim, CCEP, Krónan, Lýsi, Marel, Mjólkursamsalan og Össur skrifuðu undir samninginn í dag ásamt Eimskip og munu því einnig endurvinna sitt plast hér á land í stað urðunar eða endurvinnslu erlendis. Eimskip leggur mikla áherslu á umhverfismálin í sinni starfsemi og var með fyrstu fyrirtækjum á Íslandi að setja sér umhverfisstefnu árið 1991. Árið 2015 setti félagið sér það markmið að minnka kolefnisspor á flutta einingu um 40% til ársins 2030. Þetta verkefni er mikilvægt skref á þeirri vegferð.
„Umhverfismálin eru stór hluti af okkar daglegu störfum og við tökum tillit til þeirra í allri okkar ákvörðunartöku enda mikilvægt að við sem stórt fyrirtæki á Íslandi séum til fyrirmyndar þegar kemur að þessum málum. Við erum stolt af því að hefja samstarf við Pure North og endurvinna þar með plast sem fellur til í okkar starfsemi á Íslandi á umhverfisvænni hátt.“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
Áslaug Hulda Jónsdóttir hjá Pure North segir að fyrirtækið noti jarðvarma til að þurrka plastið þegar búið er að tæta það niður og affallið til að þrífa það og að engin kemísk efni séu notuð eins og víða er annars staðar. „Plastpalletturnar sem við framleiðum er í raun umhverfisvænasta plast í heimi.“ segir Áslaug.
Nánari upplýsingar um samfélagslega ábyrgð hjá Eimskip má finna á heimasíðu félagsins: https://www.eimskip.is/um-eimskip/samfelagsleg-abyrgd/ og hér https://www.eimskip.com/2018/corporate-social-responsibility/.
Á myndinni má sjá starfsmenn Eimskips við undirritunina hjá Pure North í dag. Frá vinstri: Elín Hjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðssviðs, Stefán Níels Guðmundsson, rekstrarstjóri, Falasteen Abu Libdeh, sérfræðingur í samfélagsábyrgð, Edda Rut Björnsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri og Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri.