Fara á efnissvæði

Eimskip og Arnarlax hafa skrifað undir samning um innanlandsflutninga til og frá Vestfjörðum. Eimskip er með traust og öflugt flutningakerfi í akstri og dreifingu á Íslandi með yfir 130 afhendingastaði og sérþekkingu á flutningi á ferskum vörum. Eimskip er vel í stakk búið til að þjónusta fyrirtæki eins og Arnarlax sem krefst áreiðanleika í allri flutningskeðjunni. Arnarlax er leiðandi laxeldisfyrirtæki á Vestfjörðum sem framleiddi 16 þúsund tonn af ferskum laxi árið 2022 og eiga von á frekari vexti á næstu árum.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips:
„Ég er mjög ánægður með að Arnarlax hafi valið Eimskip sem samstarfsaðila í innanlandsflutningum á Íslandi. Við höfum fylgst mjög vel með þróun laxeldis á Íslandi og þróað sérfræðiþekkingu okkar í þjónustu við greinina bæði hvað varðar innanlandsflutninga og útflutning. Samningurinn styrkir stöðu Eimskips á innlendum markaði og undirstrikar styrkleika okkar í að mæta kröfum viðskiptavina hvað varðar áreiðanleika, hitastýringu og rekjanleika í flutningakeðjunni. Við hlökkum til samstarfsins við Arnarlax.“

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax:
„Arnarlax lítur á samstarfið við Eimskip sem öflugt skref í að styrkja virðiskeðju okkar með fagmennsku og traustum flutningalausnum. Þegar við erum að flytja ferskan lax til viðskiptavina okkar er mikilvægt að flutningurinn sé í traustum höndum og gæði íslenska úrvals laxins sé tryggt . Við hlökkum til samstarfsins við Eimskip á komandi árum.”