Fara á efnissvæði

Frá og með 19. maí mun Eimskip styrkja strandsiglingakerfi sitt og hefja vikulegar strandsiglingar við Ísland með viðkomum á Húsavík, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjavík ásamt því að áfram verður siglt vikulega til Reyðarfjarðar og Vestmannaeyja eins og verið hefur í millilandakerfinu. Þessar breytingar eru liður í því að auka hagkvæmni og áreiðanleika siglingakerfisins ásamt því að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini félagsins og bjóða um leið umhverfisvænni valkost í innanlands flutningum á Íslandi.

Um miðjan maí tekur Eimskip í þjónustu nýtt gámaskip, Bakkafoss sem mun sigla á Norður-Ameríku leið félagsins. Með tilkomu Bakkafoss sem er 1.025 gámaeiningar, mun félagið fækka um eitt skip á Norður-Ameríku leiðinni en viðhalda sambærilegri flutningsgetu með vikulegri þjónustu. Selfoss, sem siglt hefur á Norður-Ameríku leiðinni flyst á sama tíma yfir á strandsiglingarleiðina.

Þá hefur verið ákveðið að tengja saman gámasiglingakerfi félagsins í Norður Atlantshafi og frystiflutningskerfið í Noregi í gegnum Færeyjar. Framvegis munu áætlunarskip í frystiflutningum hafa vikulega viðkomu í Færeyjum og meðal annars sinna flutningum á ferskum og frystum afurðum til Bretlands og meginlands Evrópu. Með tengingu kerfanna skapast enn fremur tækifæri í flutningum á milli Noregs og Færeyja ásamt því að tengja Noreg betur við gámasiglingakerfið. Samhliða þessum breytingum fækkar félagið um eitt gámaskip í rekstri þar sem gámaskipið Vantage, sem hefur sinnt þjónustu við Færeyjar, verður áframleigt til þriðja aðila.

Þessar breytingar eru liður í því að auka hagkvæmni og áreiðanleika siglingakerfisins ásamt því að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini.