Eimskip tilkynnir með stolti að fyrirtækið hefur gerst nýr bakhjarl Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) og íslensku fótboltalandsliðanna. Samstarfið mun ná til allra landsliða Íslands, bæði karla og kvenna, og mun stuðla að frekari eflingu knattspyrnu á Íslandi.
Félagið hefur lengi verið þekkt fyrir að styðja við íþróttir og samfélagsverkefni. Með þessu samstarfi mun Eimskip leggja sitt af mörkum til að bæta aðstöðu og stuðning við landsliðin, sem og að efla grasrótarstarf í knattspyrnu.
„Við erum afar ánægð með að fá Eimskip í hóp okkar bakhjarla,“ segir Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ. „Þetta samstarf mun veita okkur mikilvægan stuðning í okkar starfi og hjálpa okkur að ná enn betri árangri á alþjóðavettvangi. Framkvæmdirnar hér í kringum þjóðarleikvanginn í Laugardal kalla á ákveðna flutningsþörf og þá er gott að fá inn lykilleikmenn eins og þau hjá Eimskip með mikla sendingagetu“.
Eimskip mun meðal annars sjá um flutninga á búnaði fyrir knattspyrnusambandið, sem og að styðja við ýmis verkefni tengd knattspyrnuþróun á Íslandi. „Við erum stolt af því að geta stutt við íslenskan fótbolta og hlökkum til að vinna með KSÍ að því að efla íþróttina enn frekar,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips. „Það er fátt skemmtilegra en að sjá íslensku landsliðin fara á stórmót og það er mikil spenna innan okkar herbúða að sjá stelpurnar okkar spila á EM í Sviss í sumar“.
Þorvaldur og Vilhelm undirrituðu samstarfssamninginn í dag ásamt Hörpu Hödd Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Mannauðs- og samskiptasviðs.
Samstarfið tekur gildi strax og mun vara næstu þrjú ár, eða til ársloka 2027.