Eimskip mun frá og með næstu viku gera breytingar á gámasiglingakerfi sínu. Nýja siglingakerfið leysir af hólmi núverandi kerfi sem sett var á í vor vegna COVID-19. Nýja kerfið mætir enn betur þörfum viðskiptavina og með nýjum, stærri og öflugri skipum verða siglingarnar bæði áreiðanlegri og umhverfisvænni miðað við flutta einingu.
Áætlað er að Brúarfoss, seinni af tveimur nýsmíðum Eimskips, verði afhentur föstudaginn 9. október og hefji þá heimsiglingu sína frá Kína en áætlað er að skipið komi inn í þjónustu félagsins seinni hluta nóvember. Með komu Brúarfoss verður samstarf Eimskips og Royal Arctic Line komið í fulla virkni og er markmið breytinganna meðal annars að koma nýjum gámaskipum félagsins, Dettifossi og Brúarfossi, að fullu inn í siglingakerfið.
Lykilatriði
- Ný og öflug skip stuðla að traustu og áreiðanlegu siglingakerfi
- Meiri burðargeta frá Skandinavíu til Íslands
- Sterkar tengingar frá meginlandi Evrópu og Bretlandi til Íslands
- Bein hraðþjónustu tenging frá Íslandi til Rotterdam
- Tíðari strandsiglingar við Ísland
- Bein sigling frá Færeyjum til Danmerkur með styttri flutningstíma
- Styttri flutningstími frá Bandaríkjunum og Kanada til Evrópu í Trans-Atlantic þjónustu félagsins
Samtals verða sjö gámaskip í rekstri Eimskips í siglingum á milli Íslands, Færeyja, Grænlands og hafna í Skandinavíu og Evrópu. Að auki er Tukuma Arctica, skip Royal Arctic Line, í samsiglingum á milli Grænlands og Skandinavíu með viðkomu á Íslandi og í Færeyjum. Þá verða áfram þrjú gámaskip í siglingum á milli Íslands og Norður Ameríku til að tryggja vikulega þjónustu. Áætlaður heildarkostnaður við siglingakerfið er sambærilegur við það sem nú er.
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri
„Það eru ánægjuleg tímamót hjá okkur að loks sé komið að þeim tímapunkti að við fáum seinni nýsmíðina okkar, Brúarfoss, afhenta og að samstarfið við Royal Arctic Line komist í fulla virkni. Með þessu kerfi mun Eimskip halda áfram sinni framúrskarandi þjónustu í siglingum milli Íslands, Færeyja og lykilhafna í Skandinavíu, Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada auk Nuuk á Grænlandi í samstarfi við Royal Arctic Line.“
Breytingarnar byrja að taka gildi í næstu viku og gert er ráð fyrir því að kerfið verði að fullu innleitt í byrjun nóvember.
Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is