Eimskip tók í vikunni í notkun tvo umhverfisvæna vöruflutningabíla sem munu sinna vöruflutningum og útkeyrslu til viðskiptavina höfuðborgarsvæðinu. Bílarnir sem eru frá Kraftvélum eru af gerðinni Iveco Daily og ganga fyrir metani.
Íslenskt metan er umhverfisvænt eldsneyti og er svansvottað. Metan eldsneytið er unnið úr lífrænum úrgangi, er einstaklega hreint og skaðlaust við innöndun og snertingu. Þannig losa metanbílarnir um 95% minna en sambærilegir bílar sem félagið hefur í notkun. Bílarnir eru afar liprir í akstri, hljóðlátari og henta einstaklega vel fyrir akstur í þéttbýli.
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri:
Kaupin á metanbílunum tveimur eru fyrsta skrefið á þeirri vegferð okkar að minnka notkun jarðefnaeldsneytis í vörudreifingu innanlands hjá Eimskip. Það er mjög mikilvægt skref í átt að markmiði okkar að minnka CO2 losun hjá félaginu um 40% fyrir árið 2030 enda akstur stór hluti af flutningakeðju Eimskips.