Í dag fékk Eimskip afhent nýtt skip, Dettifoss sem er annað tveggja 2150 gámaeininga skipa sem fyrirtækið hefur verið með í smíðum í Kína. Afhending á skipinu er mikilvægt skref í því að geta hafið fyrirhugað samstarf með grænlenska skipafélaginu Royal Arctic Line sem áætlað er að hefjist í júní. Með samstarfinu mun Grænland tengjast alþjóðlegu siglingakerfi Eimskips sem skapar tækifæri fyrir viðskiptavini í þjónustu.
Starfsmenn Eimskips hafa verið í Kína til að vinna við afhendingu á skipinu, sumir hverjir um langan tíma og meðal annars þurft að vera í 14 daga sóttkví við erfiðar aðstæður vegna COVID-19. Áætlað er að skipið hefji siglingu frá Kína til Íslands snemma í maí og er gert ráð fyrir að hún muni taka um 40 daga. Skipið mun sigla frá Guangzhou til Taicang í Kína þar sem farmur verður lestaður til Evrópu. Síðan mun skipið sigla sína leið frá Kína með viðkomum í Singapore, Sri Lanka og gegnum Suez skurðinn inn í Miðjarðarhafið. Þaðan liggur leiðin til Danmerkur þar sem það mun koma inn í siglingaáætlun félagsins. Áætlað er að skipið komi til Íslands í fyrsta sinn seinni hluta júní.
Gert er ráð fyrir að annað skipið, Brúarfoss verði afhent undir lok þriðja ársfjórðungs.
Á myndinni eru Bragi Björgvinsson, skipstjóri, Jóhann Steinar Steinarsson forstöðumaður skiparekstrar og Gunnar Steingrímsson vélstjóri ásamt fulltrúum skipasmíðastöðvarinnar.
Dettifoss og Brúarfoss munu verða stærstu gámaskip í sögu íslensks kaupskipaflota, 180 metra löng, 31 metra breið og geta borið 2150 gámaeiningar. Þau eru hönnuð með mjög mikla stjórnhæfni og með TIER III, 17.000 Kw aðalvél sem er sérstaklega útbúin til að minnka losun köfnunarefnisoxíð (NOx) út í andrúmsloftið. Skipin verða mun sparneytnari á flutta gámaeiningu í samanburði við eldri skip og eru útbúin olíuhreinsibúnaði sem minnkar enn frekar losun brennisteins (SOx) út í andrúmsloftið. Skipin eru sérlega vel útbúin fyrir siglingar á Norður Atlantshafi, ísklössuð og uppfylla Polar Code reglur sem eru nauðsynlegar til siglinga í kringum Grænland.
- Lengd – 180 metra
- Breidd – 31 metra
- Burðageta – 2.150 gámaeiningar
- Aðalvél – 17,000 kW (23,000 hp)
Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða investors@eimskip.is .