Í dag fékk Eimskip formlega afhenta tvo rafknúna vöruflutningabíla frá Volvo við hátíðlega athöfn hjá Velti, atvinnutækjasviði Brimborgar. Eimskip verður þannig eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins til að nota rafknúna vöruflutningabíla í þjónustu sinni en félagið hefur skýr markmið um að draga úr kolefnisútblæstri í rekstri sínum.
Bílarnir, sem eru af gerðinni Volvo FL Electric, eru 18 bretta flutningabílar með allt að 300 km akstursdrægni en þeir verða fyrst og fremst notaðir til vörudreifingar á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í kæliflutningum matvæla.
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri
„Eimskip vill vera leiðandi þegar kemur að orkuskiptum og grænum lausnum og höfum við sett okkur skýr og metnaðarfull markmið í þeim efnum. Við erum stolt af því að vera eitt af þeim fyrirtækjum sem ryðja brautina þegar kemur að vistvænum vöruflutningum og fögnum þeirri þróun sem er að eiga sér stað.“
Við afhendinguna hjá Velti komu meðal annarra fram Guðlaugur Þór Þórðarson, Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra og Andreas Gröning frá Volvo Trucks áður en fyrstu bílarnir voru svo formlega afhentir en það var Þuríður Tryggvadóttir, forstöðumaður vörudreifingar Eimskips, sem tók við lyklinum fyrir hönd félagsins.
Efri mynd: Böðvar Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri Innanlandssviðs Eimskips, Þuríður Tryggvadóttir, forstöðumaður vörudreifingar Eimskips og Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
Neðri mynd: Þuríður Tryggvadóttir, forstöðumaður vörudreifingar Eimskips, tekur við lyklinum af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra.