Fara á efnissvæði

Starfsfólk Vöruhótels Eimskips hefur lagt sitt á vogaskálarnar er varðar umhverfismál en þar er í gangi samstarfsverkefni með fyrirtækinu Silfraberg við prófun nýrrar og þynnri en jafnframt sterkrar plastfilmu.
Bragi Viðarsson, rekstrarstjóri, og Guðmundur Egill Másson, þjónustustjóri, voru teknir tali og sögðu þeir okkur frá verkefninu.

„Stór hluti Vöruhótelsins er lagergeymsla fyrir viðskiptavini. Þjónustan þar felur í sér að við tínum til vörur fyrir eigendur vörunnar og komum þeim til viðskipavina þeirra. Til að tryggja stöðugleika þeirrar vöru sem við erum að taka til þá þurfum við að plasta sendinguna og notum við þar af leiðandi gríðarlegt magn af plastfilmu. Okkur langaði að leita leiða til að draga úr því magni sem við notum og styðja þannig við umhverfisstefnu Eimskips um að draga úr myndun úrgangs," segir Bragi.

Hann segir að horfa þurfti til margra þátta við skoðuðun á því að fara yfir í þynnri filmu. „Við höfðum áhyggjur af því að það þyrfti hreinlega meira af þynnri filmu til að viðhalda stöðuleika vörunnar á bretti og að það yrði erfiðara að vinna með þynnri filmu. Birginn kom vel til móts við okkur og ákveðið var að hefja tilraunaverkefni í október. Þá voru bretti plöstuð með eldri tegund af plastfilmu og styrkleiki þeirrar plöstunar borin saman við nýju filmuna og stóðst þynnri filman þann samanburð. Við sáum í kjölfarið að með þynnri filmu er hægt að draga út plastnotkun um 38%.“ Bragi segir Eimskip ætla að taka fleiri skref og stefnt sé að því að fá filmu á næsta ári úr 30% af endurunnu plasti.

Guðmundur Egill bendir á mikilvægan þátt starfsfólks í þessum breytingum. „Í tínslunni hjá okkur starfa 27 manns af 9 þjóðernum. Þetta verkefni sýndi vel styrkleika fólks og samstöðu í að taka þátt í umbótastarfi því það er ekki eins auðvelt að skipta um tegund plastfilmu og ætla mætti. Það þurfti að endurstilla allar vélar og hreinlega að læra að plasta upp á nýtt því eiginleikar filmunnar eru aðrir. Starfsfólk Eimskips þekkir að flutningur er ekki alltaf eins og vörur eru mismunandi en það sama á við um plöstun,“ segir Guðmundur Egill.

"Það gleður líka starfsfólk okkar að við stefnum á að þurfa að skipta 160 sinnum sjaldnar um plastfilmu í pökkunarvélunum okkar en hver rúlla er 16 kíló og það tekur um 4-5 mínútur að skipa um rúllu. Það er því líka vinnuhagræði í þessum breytingum. Vöruhótelið sér fyrir sér sparnað upp á 2,5 tonn af plasti á ári og lækkun kolefnisfótspors um 6,6 tonn á ári,“ bætir Guðmundur Egill við.

En hvað verður svo um plastið sem fellur til? Sem hluti af markmiðum Eimskips um að stuðla að betra hringrásarhagkerfi þá fer allt plast til Pure North í átakið Þjóðarþrif. Á síðasta ári fóru um 8 tonn af plasti til Pure North og með þeirra vinnuaðferð dró Eimskip úr loftlagsáhrifum sínum um 82% á þessi 8 tonn.