Ákveðið hefur verið að breyta nafni dótturfélags Eimskips í Noregi Eimskip CTG AS í Eimskip Norway AS. Tilgangur breytingarinnar er einföldun á markaðssetningu á þjónustu Eimskips á heimamarkaði félagsins á Norður Atlantshafi.
Eimskip Norway rekur starfsstöðvar í Kirkenes, Tromsö, Sortland, Aalesund, Bergen og Fredrikstad. Samhliða nafnabreytingunni verður þremur af sex skipum Eimskips sem eru í rekstri í Noregi gefin ný nöfn til samræmis við þau fossanöfn sem öll skip í eigu félagsins bera. Skipin Ice Crystal, Ice Star og Ice Bird munu nú bera nöfnin Langfoss, Stigfoss og Vidfoss eftir norskum fossum. Félagið rekur þar með sex sérútbúin frystiskip í Noregi sem bera nöfnin Holmfoss, Langfoss, Polfoss, Stigfoss, Svartfoss og Vidfoss.
Eimskip hefur lagt áherslu á að þjónusta sjávarútveginn og olíuiðnaðinn í Noregi og er eina gámaflutningafélagið sem tengir Norður Noreg við austurströnd Bandaríkjanna og Kanada með beinum siglingum.