17. janúar síðastliðinn fagnaði Eimskip 111 ára afmæli sínu, en félagið var stofnað árið 1914. Venju samkvæmt var starfsfólk sem náði 25 ára starfsaldri á síðastliðnu ári heiðrað með gullmerki félagsins. Að þessu sinni taldi sá hópur 13 manns, þar af 11 manns sem starfa á Íslandi og tveir starfsmenn á skrifstofum erlendis.
Gullmerkið var fyrst afhent á árshátíð Eimskips þann 18. janúar 1964 í tengslum við 50 ára afmæli félagsins en síðan þá hefur starfsfólk sem starfað hefur hjá Eimskip í 25 ár verið heiðrað á þennan hátt, ýmist á árshátíð eða á afmælisdegi félagsins. Í gegnum tíðina hafa 534 fengið merkið afhent og með hópnum í ár hækkar sú tala í 547 manns.
Hjá Eimskip starfar mjög fjölbreyttur hópur fólks af yfir 40 þjóðernum í 20 löndum og er hver einasti starfsmaður mikilvægur hlekkur í starfsemi okkar. Afhending Gullmerkisins er skemmtileg hefð og við erum afar stolt af því hve margir ná háum starfsaldri hjá okkur.