Fyrsta dagatal Eimskipafélags Íslands var gefið út árið 1928 og skartaði teikningu eftir Tryggva Magnússon, einn frægasta myndlistarmann þess tíma á Íslandi. Þetta mæltist vel fyrir og hafa dagatöl félagsins komið út síðan, að frátöldum árunum 1944 og 1965. Í fyrra skiptið vegna pappírsskorts á stríðsárunum og í seinna skiptið vegna sparnaðarsjónarmiða. Að öðru leyti hefur þessi hefð haldið sjó.
Nýjasta dagatalið prýða glæsilegar myndir af náttúru Íslands eftir ljósmyndarann Rán Bjargardóttur og nú fléttast inn aukaupplifun í fyrsta sinn. Hjá hverri mynd er nú QR-kóði sem hægt er að skanna með snjallsíma og komast þannig í enn sterkari tengingu við staðina á myndunum. Hér gefst tækifæri fyrir ólíkar kynslóðir til að ferðast saman á einstaka staði þar sem íslensk náttúra og mannvirki kveikja lifandi samtal.
Þú getur nálgast eintak í höfuðstöðvum Eimskips, Sundabakka 2, eða á næsta afgreiðslustað Eimskips um land allt.
Hægt er að skoða allar myndirnar og myndböndin í dagatalinu á https://www.eimskip.is/dagatal-2025/
Á myndinni eru Harpa Hödd Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs, Rán Bjargardóttir ljósmyndari og Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskips.