Fara á efnissvæði

Í morgun, þriðjudaginn 13. október hóf Brúarfoss, sem er seinna skipið af tveimur sem Eimskip hefur haft í smíðum í Kína heimsiglingu sína. Karl Guðmundsson skipstjóri á Brúarfossi hefur verið í Guangzhou í Kína síðan í byrjun ágúst ásamt fjórum úr áhöfninni til að fylgja skipinu eftir á lokametrum í smíðinni og taka þátt í prufusiglingu. Ellefu menn til viðbótar úr áhöfninni komu svo til Kína fyrir um tveimur vikum síðan til að taka þátt í heimsiglingunni.

Karl hóf störf hjá Eimskip sem vikapiltur á Skeiðfossi árið  1979, þá 15 ára gamall, og hefur starfað hjá félaginu allar götur síðan. Karl segir það hafa verið mjög góða tilfinningu að stíga um borð í Brúarfossi í fyrsta sinn, „Menn eru mjög ánægðir með skipið sem er gríðarlega vel útbúið nýju tækjum“ segir hann. Það kom Karli mest á óvart hversu stórt skipið er í raun og hagkvæmnin í stærðinni „Vélin eyðir minna pr. gámaeiningu en gömlu skipin og mengar minna sem er mikilvægt fyrir okkur“ segir Karl. 

Prufusiglingu lauk þann 9. september en í henni er búnaður skipsins prófaður og tekinn út „Það er flókinn búnaður í skipinu hvert sem þú lítur sem þarf að stilla saman og til þess er prufusiglingin.“ segir Karl. Heilt yfir gekk siglingin vel og öll kerfi virkuðu vel. Nú er búið að fínstilla það sem útaf stóð og skipið klárt til heimsiglingar en áætlað er að hún taki um 40 daga og að skipið komi í þjónustu Eimskips í seinni hluta nóvember. „Við hlökkum til að leggja af stað, kynnast skipinu enn betur og koma því í vinnu og gera þetta að okkar“ segir Karl að lokum.

Brúarfoss og systurskipið Dettifoss eru stærstu gámaskip í sögu íslensks kaupskipaflota, 180 metra löng, 31 metra breið og geta borið 2150 gámaeiningar. Þau eru hönnuð með mjög mikla stjórnhæfni og með TIER III, 17.000 Kw aðalvél sem er sérstaklega útbúin til að minnka losun köfnunarefnisoxíð (NOx) út í andrúmsloftið. Skipin verða mun sparneytnari á flutta gámaeiningu í samanburði við eldri skip og eru útbúin olíuhreinsibúnaði sem minnkar enn frekar losun brennisteins (SOx) út í andrúmsloftið. Skipin eru sérlega vel útbúin fyrir siglingar á Norður Atlantshafi, ísklössuð og uppfylla Polar Code reglur sem eru nauðsynlegar til siglinga í kringum Grænland.